18.12.2016 14:00

Sunnudagur 18. 12. 16

 

Fyrir mörgum árum las ég grein í breska vikuritinu Spectator þar sem fjallað var um hvers konar einstaklingar sæktust eftir að fara í blaðamennsku. Þetta var fyrir tíma veraldarvefjarins, netheima, Facebook og alls annars sem komið hefur fram og auðveldar fólki að lýsa skoðun sinni á mönnum og málefnum á opinberum vettvangi.

Í greininni var sagt að nokkur hluti þeirra sem tækju sér fyrir hendur að skrifa í blöð gerði það til að ná sér niðri á öðru fólki, til að fá útrás fyrir uppsafnaða reiði eða sálarangist sem myndast hefði vegna aðstæðna, til dæmis í skóla eða vegna sérstakra aðstæðna í uppeldinu. Ef blöð eru lesin, horft á sjónvarp eða hlustað á útvarp með niðurstöðu þessarar fræðilegu rannsóknar í huga auðveldar hún manni oft að greina fordóma fréttamannsins frá kjarna málsins sem hann lýsir.

Augljóst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrv. forsætisráðherra, hefur tekið þá afstöðu að fréttastofa ríkisútvarpsins stjórnist af óvild í sinn garð. Þetta birtist enn einu sinni greinilega í viðbrögðum hans við spurningum fréttamanns sem fyrir hann voru lagðar vegna veislu sem hann hélt á Akureyri föstudaginn 16. desember í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins.

Þessi deila Sigmundar Davíðs og fréttastofunnar er bæði erfið fyrir hann og fréttastofuna. Þá er allt annað en þægilegt fyrir hlustendur að verða vitni að þessu stöðuga stríði. Á vegum fréttastofunnar hlýtur að fara fram athugun á hvernig staðið hefur verið að miðlun frétta af Sigmundi Davíð. Ætti að kalla á sérfræðing sem báðir aðilar treysta til að fara yfir málið og birta um það skýrslu.

Hér eru gefin út tvö fríblöð sem dreift er til almennings án þess að hann hafi um það beðið, almennt liggja slík blöð frammi erlendis og þeir taka sem vilja. Hér er blöðunum troðið inn um bréfalúgur. Vissulega er unnt að biðjast undan því að fá blöðin og oft liggja þau í stöflum í anddyri fjölbýlishúsa, öllum til ama. Fréttatíminn er annað þessara blaða og standa þjóðkunnir fésýslumenn að útgáfu blaðsins.

Til starfa á Fréttatímann hafa ráðist blaðamenn sem hika ekki við að veitast ómaklega að einstaklingum. Ef til vill fá þeir ekki störf nema á fríblöðum, sé um áskrift að miðlum að ræða óttist eigendur þeirra fækkun áskrifenda, starfi sumt af þessu fólki þar.