13.12.2016 12:15

Þriðjudagur 13. 12. 16

Í dag hef ég rætt við formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin,“ sagði í gær, 12. desember, í fjórðu skriflegu yfirlýsingunni sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, birtir á vefsíðunni www.forseti.is vegna stjórnarkreppunnar sem hófst með lausnarbeiðni Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra sunnudaginn 30. október.

Orðin „alvarlegu stöðu“ urðu til þess að Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, þingfréttaritari fréttastofu ríkisútvarpsins, sagði eitthvað þa þessa leið í beinni útsendingu sjónvarpsfrétta klukkan 19.00 mánudaginn 12. desember: „Nú er komin stjórnarkreppa.“

Hér hefur verið lýst undrun yfir að stjórnmálafræðingar og fréttamenn vilja ekki nota orðið stjórnarkreppa um ástandið sem ríkt hefur síðan 30. október. Hefur verið spurt hvað þyrfti að gerast til að þessir flytjendur frétta og skýringa á þeim teldu við hæfi að tala um stjórnarkreppu. Skýring fékkst með yfirlýsingu Jóhönnu Vigdísar, að forseti notaði orðin „alvarleg staða“ um ástandið.

Dæmið sýnir raunar hve fráleitt er að forðast að nota orðið stjórnarkreppa um leið og kreppa verður vegna lausnarbeiðni forsætisráðherra.

Merkilegri orð er að finna í yfirlýsingu forsetans sem fól engum einum að mynda stjórn heldur hvatti þess í stað flokksleiðtoga „til að ráða ráðum sínum og kanna með óformlegum viðræðum sín á milli hvaða leiðir eru enn mögulegar til myndunar ríkisstjórnar sem njóti meirihlutastuðnings á Alþingi eða geti að minnsta kosti varist þar vantrausti“. Í þessu felst að forseti veitir í raun heimild sína til að mynduð sé minnihlutastjórn.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Nú er loks lokið enn einni tímaeyðslu um stjórnarmyndun. Reynsluleysið, hvert sem litið er, blasir við. Síðasta umboð var ekki veitt vegna rökstuddrar vissu um að það gæti leitt til ríkisstjórnar. Hefði það verið í spilunum væri ástandið í landinu alvarlegra en það lítur út fyrir að vera. Fimm flokka dellustjórn hefði ekki þýtt lok stjórnarmyndunaröngþveitis, heldur verið tilkynning um viðvarandi öngþveiti. [...]

Eins og málum er komið í stjórnarmyndun færi sennilega best á því að forseti gerði forystumönnum tveggja stærstu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og VG, ljósa ábyrgð sína. Þeir hefðu samtals 31 þingmann. Því væri þeim rétt að mynda öfluga minnihlutastjórn til vors. Best væri ef þeir fengju engan til að lofa að verja stjórnina. Það þarf aðeins einn til. Fáir myndu telja sér gagnlegt að bera fram vantraust.“