11.10.2016 17:00

Þriðjudagur 11. 10. 16

Í morgun var skipt um steina í báðum augum í mér hjá Sjónlagi, Glæsibæ í Laugardalnum.  Enn er ský yfir augunum en þó get ég lesið það sem ég set á skjáinn.

Þar sem ég er með þátt á ÍNN var minnst á auglýsingu Sjónlags á stöðinni þar sem sýnt er hvernig steinaskipti í augum eru framkvæmd. Taldi starfsfólkið fullvíst að áhorf á ÍNN væri mjög mikið svo margir hefðu haft auglýsinguna á orði. 

Komu orðin sem féllu þegar ég settist í aðgerðarstólinn heim og saman við reynslu margra viðmælenda minna á ÍNN sem undrast fjölda þeirra sem hafa orð á því að þeir hafi séð þá í þætti mínum.

Á vefsíðunni visir.is mátti mánudaginn 10. október lesa viðtal við Björt Ólafsdóttur, þingmann Bjartrar framtíðar, vegna brotthvarfs Heiðu Kristínuar Helgadóttur úr starfi Bjartrar framtíðar. Heiða Kristín lýsti yfir stuðningi við Viðreisn á Facebook síðu sinni sunnudaginn 9. október. Heiða Kristín aðstoðaði Jón Gnarr sem borgarstjóra og vann gegn Guðmundi Steingrímssyni sem formanni Bjartrar framtíðar. Björt segir meðal annars um Heiðu Kristínu: 

„Hún nefnir engan málefnalegan ágreining eða neitt svoleiðis en það er þessi vinna sem hún er að taka að sér [fyrir Viðreisn]. Og það er kannski líka þar sem skilur á milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, við erum ekki með djúpa vasa og stóreignafólk á bak við okkur sem kostar framboðið. Því ekkert hægt að seilast í það neitt. Við bara rekum okkur öðruvísi. Á bak við þetta framboð [Viðreisnar] er örugglega mikið af góðu fólki en auðvitað líka eins og bersýnilega sést mikið fjármagn og stórir kostunaraðilar. Við tókum meðvitaða ákvörðun um að taka ekki við fé frá fyrirtækjum og rekum okkur bara á löglegum fjárframlögum og þau leyfa ekki miklar auglýsingar eða mikið starfsmannahald eða annað. “

Ritstjórn Vísis segir frá eigin brjósti „Heiða Kristín hefur aðstoðað Viðreisn við mótun stefnu sinnar síðustu misseri en er ekki á launum hjá flokknum.“

Engin skýring er gefin á því hvers vegna ritstjórnin tekur þetta fram eða hver sé heimildarmaður hennar. Heiða Kristín var um tíma þáttarstjórnandi innan 365 samsteypunnar og var ætlað að stórauka áhorf á sjónvarpsstöð fyrirtækisins. Meira var sagt frá komu hennar til stöðvarinnar en því sem síðan gerðist, kannski starfar hún þar enn. Fréttin um inngöngu hennar í Viðreisn vekur spurningar um hvort til sé orðinn hópur fólks sem tekur að sér auglýsta flokksaðild gegn greiðslu.