16.9.2016 11:30

Föstudagur 16. 09. 16

Athygli vakti að Landssamband sjálfstæðiskvenna var tilbúið með yfirlýsingu um slæma útreið kvenna í prófkjöri í suðvestur-kjördæmi og birti hana áður en talningu var lokið að kvöldi laugardags 10. september. Breytti landssambandið þar með fylgi sem einstakir frambjóðendur hlutu í vandamál sitt og kvenna almennt. Setti þetta ekki aðeins skugga á prófkjör sjálfstæðismanna heldur einnig ákvarðanir annarra flokka um framboðslista í fréttum þessa helgi.

Í Fréttatímanunum er í dag, 16. september, rætt við sjálfstæðiskonuna Elsu B. Valsdóttur lækni um úrslit prófkjaranna. Eftir Elsu er haft að „flokksmenn hafi lagt mat á störf þingkvennanna sem féllu í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Þær hafi ekki fallið vegna þess að þær voru konur, fremur en þær voru upphaflega kosnar vegna þess“. 

Ég er sammála þessu. Það er rangt að leggja þannig út af árangri einstakra frambjóðenda í prófkjörum að þar séu kjósendur að hafna einhverjum ákveðnum hópi, hvort heldur konum eða öðrum.

„Það er gott að vera kona í Sjálfstæðisflokknum, það hefur verið gæfa flokksins að falla ekki í kynjakvótagildruna og konur standa jafnfætis körlum í flokknum,“ segir Elsa B. Valsdóttir og einnig:

„Prófkjör eru eftir sem áður besta og lýðræðislegasta leiðin til að velja á lista. Flokksmenn leggja þar mat á það hverjir eigi að vera í framboði fyrir flokkinn. Ef þetta er það sem flokksmenn vilja, þá verðum við að una því. Það skal enginn segja mér að Ragnheiður Elín hafi fallið af því hún er kona. Hún var kosin fyrir átta árum þótt hún væri kona og aftur fyrir fjórum árum. Það eina sem hefur breyst er að hún fellur niður í fjórða sæti. Það eru hennar flokksmenn sem leggja mat á frammistöðu hennar og velja milli frambjóðenda.“

Úr því að sjálfstæðismenn ákveða að hafa prófkjör eiga þeir sem síðan raða á framboðslista að fara að niðurstöðu kjósenda en ekki fikta við hana. Þótt fiktið kunni að gleðja þrýstihópa í lokuðum flokksherbergjum skapar það reiði og hneykslan hjá enn stærri hópi.

Um það má deila hvort prófkjör séu besta leiðin til að ákveða framboðslista. Reynsla mín af þátttöku í nokkrum þeirra sannfærir mig ekki endilega um að svo sé þótt erfitt sé að benda á betri leið. Séu þau hins vegar leiðin ber að fara hana á enda.