18.7.2016 17:15

Mánudagur 18. 07. 16

Á vefsíðunni eyjan.is voru sunnudaginn 17. júlí nokkur „celeb“ nefnd sem hugsanlegir frambjóðendur Viðreisnar í komandi kosningum. Því var meira að segja haldið fram að Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi yrði leiðtogi og forsætisráðherraefni flokksins og frambjóðandi auk Páls Magnússonar, fyrrv. útvarpsstjóra.

Mánudaginn 18. júlí kemur annað í ljós.

Halla Tómasdóttir sem er í fríi á Spáni segir 18. júlí á FB-síðu sinni:

„Ja hérna, það er greinilega áhættusamt að fara í frí og úr sambandi við umheiminn. Ég fullvissa ykkur kæru vinir að ég hygg hvorki á valdarán né framboð. [...] Er ykkur þó þakklát fyrir hvatninguna!“

Með orðinu „valdarán“ vísar Halla til orða sem Benedikt Jóhannesson leiðtogi Viðreisnar lét falla í samtali við Jakob Bjarnar á visir.is mánudaginn 18. júlí. Þar segir að hvorki Halla né Páll hafi rætt framboð við Benedikt. Jakob Bjarnar segir:

„Ekkert rætt um hugsanleg framboðsmál Höllu og Páls
. Allt þetta hefur þá verið ákveðið án samráðs við formanninn [Benedikt] sem veltir því nú fyrir sér, meira í gamni en alvöru, að um sé að ræða valdaránstilraun. „Ég hef ekkert við hana rætt. Né hún við mig. Ég hef rætt við Pál Magnússon. Ræddi við hann í viðtali á Bylgjunni, þá spurði hann mig um ýmis mál en hann ræddi ekkert sín framboðsmál.[...] En, þú mátt greina frá því að mjög líklegt er að ég verði í framboði. Þar er þá komið eitt nafn sem hægt er að staðfesta.“

Greint var frá því 12. júlí að Viðreisn hefði ráðið Birnu Þórarinsdóttur sem framkvæmdastjóra. Hún stjórnaði á sínum tíma starfinu í Evrópustofu, upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi. Rætur Viðreisnar má einmitt rekja til reiði Benedikts Jóhannessonar og fleiri yfir að landsfundur sjálfstæðismanna ályktaði árið 2013 að Evrópustofu, áróðursstofu ESB á Íslandi, skyldi lokað. Þá var sagt að Evrópustofa hefði ekkert með aðild að ESB að gera, hún væri einskonar Fulbright-stofnun! Að sjálfsögðu var stofunni lokað og gerðist það 31. ágúst 2015. Þá sagði Dóra Magnúsdóttir, arftaki Birnu: „Það er alveg skýr vilji Evrópusambandsins að starfa ekki í andstöðu við vilja stjórnvalda í hverju landi fyrir sig.“ Stofan yrði hugsanlega enduropnuð sæktu Íslendingar að nýju um ESB-aðild.