16.7.2016 16:00

Laugardagur 16. 07. 16

Þetta hefur verið söguleg vika. Theresa May varð forsætisráðherra Breta, hryðjuverkamaður varð 84 að bana í Nice og olli líkamstjóni á 202 með því að aka flutningabíl í mannþröng sem fagnaði þjóðhátíðardeginum 14. júlí og herinn gerði tilraun til byltingar í Tyrklandi.

Allt mál sem ég hef fylgst með stig af stigi af áhuga enda haft til þess nægan tíma, tölvu og snjallsíma hér í sjúkrahúsinu á Selfossi þar sem ég hef legið frá sunnudeginum 10. júlí vegna bráðrar húðsýkingingar sem kom fram á vinstra fótlegg. Liðu um 34 tímar frá því að ég varð einkenna um sýkingu var þar til ég ákvað að aka á bráðamóttökuna í sjúkrahúsinu á Selfossi. Þar var ég greindur og síðan lagður inn til að fá sýklalyf reglulega í æð. Á einni viku frá  því að ég varð einkennana var hefur læknum og hjúkrunarfólki tekist að sigrast á sýklunum og síðdegis var ég útskrifaður.

Ég var minntur á að á sínum tíma hefði sýking af sama toga leitt sjálfan Gretti sterka til dauða og þess vegna bæri að fara að öllu með gát og ráða niðurlögum sjúkdómsins. Fyrir 25 árum fékk ég svipaða sýkingu og lá þá í nokkra daga á LSH með sýklalyf í æð.

Heimakoma er íslenskt orð um bráða húðsýkingu og segir í lýsingu á doktor.is að oft fylgi heimakomu sótthiti, skjálfti og almenn vanlíðan. Heimakoman geti komið fyrir hjá hvaða fólki sem er en sé algengust hjá börnum og eldra fólki.  Sé ekkert að gert geti heimakoma leitt til blóðsýkingar (blóðeitrunar) og hún geti komið fyrir aftur og aftur á sama stað og þá sé hætta á langvarandi þrota og bjúg. Stundum sé til staðar langvarandi sveppasýking, t.d.milli táa, sem veiki húðina og geri bakteríum mögulegt að komast í gegnum hana og valda endurtekinni heimakomu eða annars konar sýkingum.

Við allar mínar sundferðir hef ég reynt að verjast því að fá fótsvepp en betur má ef duga skal.

Læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sjúkrahússins á Selfossi hefur reynst mér afburðavel þessa daga, umhyggjan og þjónustan er með miklum ágætum. Þá er maturinn til fyrirmyndar og fiskurinn betri en á besta veitingastað. Kærar þakkir fyrir mig.