16.6.2016 15:30

Fimmtudagur 16. 06. 16

Hér hafa félagar í The Chicago Council on Global Affairs verið á ferð til að fræðast um þjóðfélagsmál og kynnast landi og þjóð. Við Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor ræddum við hópinn í hádeginu í dag. Var þess óskað að við ræddum stöðu Íslands í utanríkis- og öryggismálum. Augljóst er að meiri athygli beinist nú að geopólitískri og strategískri stöðu Íslands en verið hefur í um aldarfjórðung.

Samsæriskenningar eru mismunandi furðulegar. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, birtist ein miðvikudaginn 15. júní sem er í furðulegasta kantinum. Kjarni hennar er að Davíð Oddsson hafi boðið sig fram í forsetakosningunum til að draga athygli frá Panama-skjölunum. Í nafnlausum dálki Markaðarins sem ber heitið Skjóðan segir meðal annars:

„Nokkrir útrásarvíkingar reyndust vera með Panama-félög en engar nýjar fréttir voru í því, nema þá að furðu vekur að ekki skuli fleiri þekktir útrásarvíkingar vera þarna á blaði.

Boðað var að flett yrði ofan af aflandsfélögum fyrirtækja og einstaklinga úr íslenskum sjávarútvegi. Leið og beið og eftirvæntingin óx. Þær litlu upplýsingar sem fram komu virtust óspennandi.“ 

Minnt er á að 9. maí var öllum almenningi opnaður aðgangur að Panama-skjölunum en 8. maí hafi Davíð Oddsson kynnt framboð sitt til forseta. Við það hafi Ólafur Ragnar Grímsson endanlega ákveðið að draga sig í hlé en eiginkona hans hafi tengst Panama-skjölunum. Þá segir í Skjóðunni:

„Framboð hans [Davíðs] þjónar hins vegar tvíþættum tilgangi. Forsetinn með tengslin við Panama-félög gat dregið sig í hlé og umræðan hefur snúist um framboð Davíðs og túlkun hans á ferli þess frambjóðanda sem hefur yfirburðafylgi í skoðanakönnunum. 

Panama-skjölin hafa ekki verið rædd frá því Davíð bauð sig fram. Framboð hans er smjörklípa aldarinnar. Kannski hugsaði hann þetta ekki að öllu leyti sem smjörklípu, Verið getur að hann hafi haldið að hann ætti séns. Bakhjarlar hans vita hins vegar hvað þeir syngja. Það er kaldhæðnislegt að höfundur smjörklípunnar í íslenskum stjórnmálum skuli enda feril sinn sem ein allsherjar smjörklípa fyrir íslenska Panama-greifa.“

Málefnalega er kenningin út í hött. Að hún skuli birtast í blaði hjónanna Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fjölmiðli sem skyldastur er Panama-skjölunum á Íslandi, sýnir að hér megi ef til vill lesa smjörklípu smjörklípunnar.