26.4.2016 19:00

Þriðjudagur 26. 04. 16

Í frétt frá 18. apríl á vefsíðu útlendingastofnunar segir:

„Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016 sóttu 134 einstaklingar frá 24 löndum um vernd á Íslandi. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 39 einstaklingar sótt um vernd. Flestir umsækjenda komu frá Albaníu (33), Makedóníu (21), Írak (19) og Sýrlandi (12) en alls komu 44% umsækjenda frá löndum Balkanskagans. 78% umsækjenda voru karlkyns og 85% umsækjenda fullorðnir. Umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum voru þrjár á fyrsta ársfjórðungi.“

Stofnunin bendir á að aðstæður meirihluta hælisleitenda hér á landi séu frábrugðnar því sem gerist annars staðar í Evrópu. Þar eru Sýrlendingar, Afganir og Írakar fjölmennastir en fólk frá Balkanlöndunum hér. Ástæðan fyrir þessu er pólitísk. Íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið nægilega skýrt af skarið um að engar almennar efnislegar forsendur séu fyrir hælisvist fólks frá Balkanlöndunum hér landi. Fordæmið sem alþingi gaf með samþykkt ríkisborgaralaganna skömmu fyrir jólaleyfi sitt dregur dilk á eftir sér.

Á vefsíðunni segir einnig:

„Útlendingastofnun hefur tekist að halda málsmeðferðarhraða í viðunandi horfi það sem af er ári [...] 

Meðalmálsmeðferðartími afgreiddra mála á fyrsta ársfjórðungi 2016 var 103 dagar. Að meðaltali tók 102 daga að afgreiða mál á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 104 daga að afgreiða mál á grundvelli efnismeðferðar. Ákvarðanir um synjanir voru að meðaltali teknar á 95 dögum og ákvarðanir um veitingar á 112 dögum.“

Þá er þess getið að í lok janúar 2016 hafi verið hafist handa við að vinna mál á grundvelli svonefndrar forgangsmeðferðar. Þegar hafi 23 mál verið afgreidd þannig og þar hafi meðalmálsmeðferðartími verið 13 sólarhringar. Þá segir:

„Kærunefnd útlendingamála kvað upp 80 úrskurði í kærumálum vegna hælisumsókna á fyrsta ársfjórðungi og staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar í 87% tilvika. Þar af staðfesti nefndin allar ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum sem afgreidd voru á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og í 82% tilvika þegar um efnismál var að ræða.“

Þetta eru mikilsverðar upplýsingar um málaflokk sem ræður miklu um framvindu stjórnmála í öllum Evrópulöndum. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur undir forystu innanríkisráðherranna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal verið unnið skipulega að því að „straumlínulaga“ afgreiðslu hælismála undir stjórn Kristínar Völundardóttur og starfsmanna útlendingastofnunnar.

Allar breytingar á útlendingalögum hér hljóta að taka mið af hertum reglum annars staðar og verða í takt við þær. Annars er verr af stað farið en heima setið.