25.2.2016 16:30

Fimmtudagur 25. 02. 16

Viðtal mitt við Pál Þórhallsson, formann stjórnarskrárnefndar, á íNN frá því í gær er komið á netið og má sjá það hér.

Í gær birtist á vefsíðu hins kunna bandaríska tímarits Foreign Affairs grein eftir tvo doktorsnema í alþjóðastjórnmálum: Gregory Winger og Gustav Pétursson undir fyrirsögninni: Return to Keflavik Station Iceland's Cold War Legacy Reappraised þar sem fréttin í Stars and Stripes  um fjárveitingu til að endurgera flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli er sett í samhengi við stöðu Íslands og hernaðarlegt mikilvægi á tíma kalda stríðsins. Lesa má greinina hér.

Höfundar segja að fréttin hafi vakið trepidation (kvíða) á Íslandi og hann hafi ekki minnkað við að forsætisráðherra og almenningur hafi fengið upplýsingarnar úr fjölmiðlum en ekki eftir opinberum leiðum. Þá er rifjað upp að Bandaríkjaher hafi farið héðan og skilið eftir sig sárindi ekki síst vegna aðferðarinnar við brottförina, þetta sitji enn í sumum og kunni að spilla fyrir áformum um endurkomu. Höfundum finns ólíklegt að opnuð verði hér bandarísk herstöð að nýju en segja í lok greinar sinnar:

„As long as European allies are reliant on U.S. military power, and as long the United States believes that it has strategic interests in Europe, Iceland will remain the indispensable bridge between Europe and North America that is needed for credible U.S. defense guarantees in Europe.“

Þessari niðurstöðu verður ekki mótmælt. Viðbrögð við nýjum aðstæðum munu að lokum ráðast af öðru en því sem gerðist fyrir 10 árum þegar Bandaríkjaher hvarf úr Keflavíkurstöðinni. Þau hljóta að ráðast af skynsömu mati á nýju aðstæðunum og nauðsynlegum ráðstöfunum til að tryggja öryggi Íslands og leiðanna milli Norður-Ameríku og Evrópu yfir Norður-Atlantshaf.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist frétt sem skiptir miklu um pólitísk samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Þar segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals,  að engar hvalveiðar verði stundaðar á vegum fyrirtækis síns á þessu ári vegna erfiðleika við að selja hvalaafurðir í Japan. Hvalur hafi „mætt endalausum hindrunum við að koma hvalaafurðum á markað í Japan“.

Vegna bandarískra laga til að knýja fram bann við hvalveiðum hafa háttsettir bandarískir ráðamenn ekki getað átt eins náin samskipti við íslensk stjórnvöld og ella væri, til dæmis með heimsóknum hingað til lands. Þetta kann nú að breytast.