8.2.2016 14:00

Mánudagur 08. 02. 16

Kosið var til Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2016 miðvikudaginn 3. og fimmtudaginn 4. febrúar. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hélt áfram sigurgöngu sinni fékk 17 fulltrúa kjörna og Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk 10 fulltrúa kjörna af 27 stúdentaráðsfulltrúum. Vaka sigraði á öllum sviðum nema einu. Á

félagsvísindasviði var kjörsókn 40,19% og fékk Vaka 5 menn kjörna og Röskva 2.

menntavísindasviði var kjörsókn 33,87% og fékk Vaka 4 menn kjörna og Röskva 1. 

heilbrigðisvísindasviði var kjörsókn 52,90% og fékk Vaka 3 menn kjörna og Röskva 2. 

verkfræði- og náttúruvísindasviði var kjörsókn 52,31% fékk Vaka 3 menn kjörna og Röskva 2  

hugvísindasviði var kjörsókn 34,15% og fékk Vaka 2 menn kjörna, Röskva 3 menn kjörna.

Vegna þess að Vaka sigraði hefur lítið verið sagt frá úrslitunum í fjölmiðlum.

Enn einu sinni er ástæða til að halda gullmolum Birgittu Jónsdóttur pírataþingmanns til haga. Hún tilkynnti að morgni mánudags 8. febrúar í samtali við Óðin Jónsson á Morgunvakt rásar 1 ríkisútvarpsins að hún ætlaði enn einu sinni að bjóða sig fram til þings, það er í þriðja sinn. Rökin voru þessi:

„Ég tók ákvörðun að ef að þetta verður þannig að okkur takist að standa við það sem aðalfundur Pírata samþykkti á síðasta fundi að fara í þessa vegferð, sem við höfum verið að ræða hérna núna, að þá vil ég taka þann slag. Mig langar ekkert rosalega mikið að halda áfram bara til að vera fullkomlega heiðarleg en mér finnst líka óábyrgt að ef við erum í miðri aðgerð og í algerlega allt öðrum aðstæðum en við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir að þá finnst mér óábyrgt að stökkva frá borði.“ 

Þú vilt fylgja stjórnarskrármálinu til loka? spurði Óðinn.

„Já mér finnst líka, ef að það er mjög mikið af nýju fólki, nauðsynlegt að það sé einhver sem skilur. Það hefur enginn sem ég sé, sem hefur til dæmis eitthvað verið í samskiptum eða unnið með ráðuneytunum. Þegar maður kemur með algerlega nýtt fólk sem að veit ekkert hvernig innri kerfin fúnkera að þá er hætt við að það verði ekki mjög effektift.“

Birgitta lítur á sig sem nauðsynlegan leiðtoga og leiðbeinanda í hópi óreyndra af því að hún á ekki von á að neinn frambjóðandi pírata skáki henni að reynslu og þekkingu.