4.2.2016 18:00

Fimmtudagur 04. 02. 16

Þáttur minn á ÍNN í gær þar sem ég ræði við Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur, grasa- og nálastungulækni, er nú á netinu eins og sjá má hér. 

Í dag flutti Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, landamærastofnunar Evrópu, erindi á hádegisfundi Varðbergs og má lesa frásögn af fundinum hér  og hér.

Þeim sem fylgst hafa með málatilbúnaði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar frá því að húsleit var gerð hjá Baugi árið 2012 kemur ekki á óvart að deilur um form og vanhæfi setji svip á fréttir þegar Jón Ásgeir og Gestur Jónsson, lögmaður hans, birtast enn einu sinni í réttarsalnum. Eins og jafnan áður er Jón Ásgeir kynntur til sögunnar sem ofsótt fórnarlamb. Nú sækja ekki stjórnmálamenn gegn honum heldur sjálfir dómararnir – hann heimtar að Arngrímur Ísberg sem fór um hann mildum höndum í Baugsmálinu dæmi í svonefndu Aurum-máli en ekki Símon Sigvaldason.

Telur Jón Ásgeir að Símon hafi harma að hefna vegna þess að Fréttablaðið í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs flutti frétt­ir af fé­lag­inu Rann­sókn­um og grein­ingu ehf, en eig­in­kona Sím­on­ar á það fé­lag. Seg­ir í bók­un­ lögmanns Jóns Ásgeirs að Sím­on hafi einnig setið í stjórn þess fé­lags. „Frétt­irn­ar snér­ust um að fyr­ir­tækið hefði notið óeðli­legs aðgangs að op­in­beru fé auk þess sem ekki hefði verið rétt staðið að út­hlut­un arðs úr fé­lag­inu,“ seg­ir í bók­un­ sem Gestur lagði fram í réttinum í dag.

Þessar fréttir sem þarna eru nefndar til sögunnar voru hinar undarlegustu miðað við tilefnið og raunar eiginlega á skjön við eðlilega fréttamennsku þegar efni málsins er skoðað. Þær skyldu þó ekki hafa verið birtar til að skapa Jóni Ásgeiri þá átyllu til að amast við Símoni dómara sem birtist í dag?

Í frétt á mbl.is um kvartanir Jóns Ásgeirs segir einnig:

„Þá fer Gest­ur einnig yfir það að Jón Ásgeir hafi verið með rétt­ar­stöðu sak­born­ings í ís­lensku rétt­ar­kerfi í hálft fjór­tánda ár, eða frá því árið 2002. Seg­ir hann umræðu í þjóðfé­lag­inu hafa verið óvægna gagn­vart Jóni Ásgeiri.“

Þarna er enn alið á þeirri skoðun að það sé þjóðfélaginu en ekki Jóni Ásgeiri að kenna að hann hafi sætt rannsókn lögreglu í svo langan tíma. Líklega hefur þetta ferli lengst mest vegna sífelldra tilrauna Jóns Ásgeirs og lögmanna hans til að komast hjá efnislegri niðurstöðu um mál hans og láta þau frekar snúast um formsatriði eða vorkunnsemi með sakborningnum. Þeirri arferð er enn beitt.