31.1.2016 15:30

Sunnudagur 31. 01. 16

Mánudaginn 1. febrúar hefst röð prófkjara í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna í nóvember. Fyrsta prófkjörið er í Iowa-ríki og er talið að Hillary Clinton sigri hjá demókrötum en Donald Trump hjá repúblíkönum.

Í tilefni af þessu skrifar Andrew Roberts, heimskunnur sagnfræðingur og blaðamaður, grein í The Sunday Telegraph í dag þar sem hann líkir Trump við Benito Mússólíni, fastistaforingja á Ítalíu.

Trump sé þó verri en Mússólíni sem hefði aldrei dottið í hug að banna múslimum að koma til Ítalíu. Þá hefði Mússólíni ekki heldur látið sér til hugar koma að raða eiginkonu sinni og hjákonu við sama borð í góðgerðakvöldverði eins og Trump gerði að Roberts viðstöddum, öllum til ama nema hinum sjálfumglaða gestgjafa, Trump.

Greininni lýkur á þessum orðum:

„Það má til sanns vegar færa að ýmislegt af því sem íhaldssamir álitsgjafar segja um Trump sé reist á snobbi; það er satt að ruddamennska Trumps, augljós karlremba, hárgreiðsla, viðskiptahættir – einkum fjögur gjaldþrot spilavíta hans – hafa skapað andúð á honum meðal ýmissa Bandaríkjamanna. Það er hins vegar almennt lýðskrum hans og hömlulaus hentistefna sem fólk fyrirlítur, þessi framkoma hans mun líklega opna Hillary Clinton leið inn í Hvíta húsið til að hún geti setið þar í fjögur, hugsanlega átta ár til að framlengja næsta hörmuleg átta ár Obama forseta.

Það ætti að vera einstaklega auðvelt að sigra Clinton sem frambjóðanda – hún nýtur víða lítils trausts, næstum 70 ára gömul, leiðinlegur ræðumaður, stóð sig illa sem öldungardeildarþingmaður og verr sem utanríkisráðherra - hvað sem þessu líður virðast repúblíkanar að því komnir að velja eina manninn sem gæti látið hana líta út sem stjórnmálaskörung og næstum geðþekka. Skynsamir repúblíkanar ættu að iðrast þess dags þegar Teddy Roosevelt tryggði að frambjóðendur væru valdir í prófkjörum frekar en með gamla laginu þar sem flokksforingjar hittust í reykfylltum herbergjum, hefðu þeir þetta vald nú stæði valið milli Marcos Rubios, Johns Kasich eða Jebs Bush, þ. e. einhverra frambærilega og heilvita manna sem væru auk þess sigurstranglegir.“

Undir þessi orð Andrews Roberts skal tekið. Með miklum ólíkindum er að Trump hafi náð þetta langt innan flokks repúblíkana. Áður en hann hóf valdabrölt sitt þar litu margir á hann sem demókrata og náinn vin Clinton-hjónanna. Að ógeðfelldur málflutningur hans og hentistefna höfði til jafnmargra og raun ber vitni er áhyggjuefni.