22.12.2015 16:00

Þriðjudagur 22. 12. 15


Á vefsíðunni forseti.is segir mánudaginn 21. desember:

„Forseti á fund með stjórnendum Stofnunar múslíma á Íslandi og í Svíþjóð, Karim Askari og Hussein Aldaoudi, um starfsemi stofnunarinnar á Íslandi, aðlögun að íslensku samfélagi, menningu og lýðræðishefðum, umræður í íslenskum fjölmiðlum sem og um kaupin á Ýmis húsinu og fjárstyrk frá Sádi Arabíu og samskipti þeirra við sendiráð þess lands.“

Karim Askari var kallaður talsmaður Menningarseturs múslíma þegar hann birti grein í Fréttablaðinu fyrir fimm árum og boðaði að menningarsetrið fengi Ými til afnota árið eftir (2011). Þá var vakin athygli á að hann tengdist samtökum sem boðuðu wahabisma, það er grein íslam sem á rætur í Sádí-Arabíu. Á Vesturlöndum hefur wahabisma verið lýst sem öfgastefnu gegn gyðingum, samkynhneigðum, kristni og menningu Vesturlanda.

Hinn viðmælandi forsetans, Hussein Aldaoudi, kom við sögu í frétt á visir.is hinn 9. október 2010 þar sem stóð:

„Í menningarsetri múslima eru einstaklingar sem Salman Tamimi [formaður Félags múslima á Íslandi] segist hafi rekið úr sínu félagi fyrir að hafa brotið lög félagsins um öfga, ofstæki og yfirgang í nafni trúarbragða.

Þessir sömu aðilar eru í forsvari fyrir hópi fjárfesta sem fest hafa kaup á Ýmishúsinu. Í húsinu verður menningarsetur fyrir múslima, bænaaðstaða, barnaskóli og fleira.

Fjárfestarnir á bak við þessi 250 milljón króna kaup eru erlendir.

Þeir heita Hussein Al-Daoudi, Maryam Moe og Sulaiman Abdullah Alshiddi.

Það eru tengsl Hussein Al-Daoudi við öfgafulla múslima sem sett hafa verið spurningamerki við.

Hussein Al-Daoudi er skólastjóri Al-Salam einkaskólans í Svíþjóð sem gagnrýndur hefur verið fyrir að þiggja fjárframlög frá íslömskum trúboðasamtökum i Saudi Arabíu.

Þau eru nátengd Al-Haramein samtökunum sem eru á lista öryggisráðs Sameinu þjóðanna yfir hryðjuverkasamtök.“

Augljóst er að þennan fund Ólafs Ragnars með forráðamönnum wahabista á Íslandi má rekja til varnaðarorða hans um hættuna af öfgahreyfingum múslima. Þau urðu hins vegar til þess að Salmann Tamimi nefndi þá í sömu andránni í blaðaviðtali Ólaf Ragnar og Adolf Hitler.

Forseti Íslands skuldar þjóðinni frásögn af fundinum með þessum herramönnum 21. desember 2015.