20.12.2015 16:00

Sunnudagur 20. 12. 15

Fjárlög fyrir árið 2016 hafa verið samþykkt og enn einni lotunni til að knýja fram meira fé til ríkisútvarpsins er lokið. Ráðin sem beitt er í þessu skyni eru margvísleg. Markmiðið er eitt að ríkisútvarpið fái einfaldlega allt sem það heimtar og þegar því þóknast. Ekki var látið undan kröfunni að hætta við lækkun nefskattsins til útvarpsins.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, segir þó niðurstöðu fjárlaga „ágæta“ fyrir ríkisútvarpið og færði þessi rök fyrir því í kvöldfréttum laugardaginn 19. desember:

 „212.700 greiðendur [eru]áætlaðir af afnotagjaldinu. Og með 175 milljóna króna [auka]framlaginu [sem ríkisstjórnin ákvað], þá eru þetta 17.400 sem við fáum, per gjaldanda. Og stjórnarandstaðan bað um 17.800, eða óbreytt útvarpsgjald. Þannig að mér sýnist við vera að mæta öllum sérstökum óskum um það“ 

Eva María Jónsdóttir, vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, starfaði um tíma á ríkisútvarpinu. Rætt var við hana í Morgunblaðinu sunnudaginn 13. desember og sagði hún meðal annars:

„RÚV [ríkisútvarpið] hefur alla burði til að framleiða gott sjónvarpsefni, ekki bara fyrir þrjú hundruð þúsund hræður hér heima, heldur líka fyrir Evrópu- og jafnvel alheimsmarkað. RÚV gæti hæglega verið farsælasta framleiðslu- og útflutningsfyrirtæki landsins. Vandinn er hins vegar sá að stofnunin er ævinlega í gíslingu stjórnmálanna, þar sem of mikil orka fer í að deila um fjármögnun og fyrirkomulag í stað þess að búa til gott sjónvarp fyrir fleiri. Stjórnmálamenn virðast á köflum hræddir um að RÚV verði einhver lúxusríkisspeni, sem framleiði þjóðkunna einstaklinga sem gætu orðið fyrirferðarmiklir. Fyrir vikið þurfa húsbændur á RÚV alltaf að hugsa til styttri tíma og verjast ásókn í stað þess að vinna eftir metnaðarfullri framtíðarsýn. Þeirri nálgun verður að breyta. Hugsum stærra!“

Þetta er frumleg skoðun: stjórnmálamenn þrengi að ríkisútvarpinu fjárhagslega af því að þeir óttist samkeppni frá fyrirferðarmiklum einstaklingum úr hópi starfsmanna. Sjálfhverfari skýringu er vart unnt að ímynda sér. Að stjórnmálamönnum sé ljúft að sitja með ríkisútvarpið í fanginu sem vandræðabarn vegna fjárhagsörðugleika og telji persónulegum hag sínum best borgið með því að láta útvarpið ekki hafa allt sem það óskar er fjarri öllu sem rétt er í þessu efni. Kjarni málsins er að stjórnendur ríkisútvarpsins leita alltaf skýringa sem snerta ekki rekstrarstjórn þeirra sjálfra og virðingu fyrir settum fjárhagsramma.