11.12.2015 20:15

Föstudagur 11. 12. 15

 

Í frétt eftir Heimi Má Pétursson á visir.is í dag má lesa:

„Ríkisstjórnin hefur úr litlu að spila fyrir utan liði í fjárlagafrumvarpi sínu í togstreitu sinni við stjórnarandstöðuna um lok þingfunda fyrir jól. Forseti Alþingis hefur ákveðið að fundað verði þriðja kvöldið í röð um fjárlagafrumvarpið en engar líkur eru á að umræðunni ljúki í kvöld.

Yfirleitt hefur ríkisstjórn hverju sinni nokkurn fjölda mála til afgreiðslu fyrir jólaleyfi sem hún getur hliðrað til með í samningum sínum við stjórnarandstöðuna. Nú er staðan hins vegar þannig að ríkisstjórnin hefur nánast engin önnur mál að semja um en fjárlagafrumvarpið og þar er stjórnarandstaðan með kröfur.“

Þessi frétt sýnir allt annað andrúmsloft á alþingi en þegar ég sat þar. Þarna segir að vandræði séu að ljúka þingi fyrir jól af því að ríkisstjórnin eigi enga aðra bita fyrir stjórnarandstöðuna en fjárlagafrumvarpið og þess vegna sé ekki unnt að semja um þinghlé.

Í fyrsta lagi gengur fréttamaðurinn að því sem vísu að stjórnarandstaðan sé til sölu – hún verði með málþóf nema hún fái eitthvað fyrir að hætta því. Í öðru lagi gengur fréttamaðurinn að því sem vísu að ekki sé unnt að ljúka þingi fyrir jól nema um það sé samið. Það er engin nauðsyn að semja um lyktir mála nema litið sé á þingstörfin eins og gíslatöku – stjórnarandstaðan sé í hlutverki gíslatökumannsins og ríkisstjórnin verði að borga honum til að mál verði afgreidd. Sé málum þannig háttað á að sjálfsögðu ekki að semja. Það er skynsamleg meginregla í samskiptum við gíslatökumenn.

Nú er staðan sú á alþingi að stjórnarandstaðan ætlar að taka fjárlagafrv. fyrir árið 2016 í gíslingu til þess meðal annars að koma í veg fyrir að nefskattur til ríkisútvarpsins verði lækkaður en Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fær frumvarp sitt um það efni ekki afgreitt úr ríkisstjórn.

Með aðstoð fjölmiðlamanna hefur markvisst verið vegið að virðingu alþingis með fréttum af þessum toga. Látið er eins og allt sé í hers höndum sé ekki farið að vilja stjórnarandstöðu svo að ekki sé minnst á innihaldslausu fréttirnar um haldleysi starfsáætlunar alþingis eða hvort þingmenn séu á kvöld- og næturfundum fleiri eða færri kvöld í viku.

Endalausar fréttir um ekkert veikja ekki aðeins trú manna á alþingi heldur draga einnig úr hlustun og áhorfi á fréttamennina eins og dæmin sanna.