8.10.2015 21:00

Fimmtudagur 08. 10. 15

Viðtal mitt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 7. október er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag efndi Varðberg til hádegisfundar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns þar sem Lech Mastalerz, forstöðumaður sendiráðs Póllands, flutti erindi um Pólverja andspænis áreitni Rússa. Það var fróðlegt að heyra sjónarmið hins pólska stjórnarerindreka en ræðu hans má lesa hér.

Augljóst er að áhyggjur þeirra sem búa í nágrenni við rússnesku hólmlenduna Kaliningrad fyrir botni Eystrasalts á mörkum Póllands og Litháens eru miklar. Rökin sem Mastalerz flutti fyrir nauðsyn þess að Bandaríkjamenn og NATO efldu viðbúnað sinn í þessum löndum voru sannfærandi.

Innlimun Rússa á Krímskaga var ekki aðeins reiðarslag fyrir Úkraínumenn heldur allar nágrannaþjóðir þeirra. Af orðum Mastalerz mátti ráða að hann teldi hernað Rússa í Sýrlandi að nokkru þjóna þeim tilgangi að rússneski herinn reyndi vopn sín. Rússnesk stjórnvöld þyrðu ekki að láta fullkomin vopn í hendur á aðskilnaðarsinnum eða hermönnum sínum í austurhluta Úkraínu eftir að farþegavél Malaysia Airlines var skotin niður í fyrra. Þá taldi hann Rússa ekki hafa burði til að heyja tvö stríð samtímis og þess vegna minnkaði spennan í Úkraínu.

Ég sagði á fundinum að lýsing Mastalerz á stöðunni í Póllandi sýndi að full ástæða væri til árvekni í austurhluta Evrópu. Þriðjudaginn 6. október hefði yfirmaður Miðjarðarhafsflota NATO sagt á fundi í Washington að Rússar hefðu reist stálboga sem næði frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs, sjá hér. Lýsti ég undrun hve mikils andvaraleysis gætti um þjóðaröryggismál hér á landi. Við ættum ekki síður en Pólverjar að ræða þessi mál af alvöru.