18.7.2015 22:15

Laugardagur 18.07. 15

Frá því hefur verið sagt að fyrir aldarfjórðungi hafi Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, látið þau boð út ganga á ritstjórninni að ekki skyldi sótt hart að þeim sem ættu um sárt að binda vegna hruns Sovétríkjanna. Með öðrum orðum ekki ætti að sparka í liggjandi mann. Að sjálfsögðu réð ritstjórinn. Þegar ég vék að því á alþingi vorið 1995 að gera ætti upp við kommúnismann hér á landi varð dálítið uppnám í þingsalnum eins og sjá má kynni menn sér þingtíðindi.

Af því sem ESB-aðildarsinnar á Íslandi segja nú má ráða að þeim líði svipað og kommúnistum og fylgismönnum Sovétríkjanna árin 1989 til 1991. Sr. Baldur Kristjánsson segir á Pressunni í dag (18. júlí) að krísan í Grikklandi sýni hæfni ríkja í Evrópu til að leysa deilur við samningaborðið og hann harmar að Íslendingar hafi „stjórnmálamenn, embættismenn og almenningur“ hafi ekki komið að lausn krísunnar. Baldur segir:

„Sorglegast þykir mér þegar sömu aðilar og þeir sem reyna að berja á ESB fyrir það að láta ekki meira fé renna til Grikkja prïsa sínum sæla fyrir það að Ísland skuli ekki vera í ESB því að þá þyrftum við að borga. Stórmannleg afstaða einstaklinga þjóðar sem sjálf er óhrædd við að þyggja þegar færi gefst og þörf er á.“

Baldur skýrir lesendum sínum ekki frá hverjir hér á landi vilji að ESB láti Grikkjum meira fé í té. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Ég sé ekki betur en að Ísland verði utan við EB næstu áratugi. Vonandi tekst því þó að starfa náið með vinaþjóðum í Evrópu en fari ekki á beit milli stórvelda heimsins. Slíkt flakk gæti orðið okkur skeinuhætt um leið og reynslubolti eins og forseti vor heyrir sögunni til.“

Þetta eru skrýtin lokaorð. Ísland er aðili að EES og Schengen-samstarfinu, tveimur öflugum stoðum sem eru sameiginlegar með ESB-ríkjunum og auk þess er landið eitt af 28 aðildarríkjum NATO auk aðildar að Evrópuráðinu, Öryggissamvinnustofnun Evrópu og öðrum samtökum. Íslendingar þurfa ekki að fara á „beit milli stórvelda heimsins“, þeir hafa skipað sér í fylkingu. Ber að skilja lokaorð sr. Baldurs Kristjánssonar á þann veg að hann vilji að Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér til endurkjörs árið 2016?