11.6.2015 23:00

Fimmtudagur 11. 06. 15

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til við alþingi að verkfalli BHM verði frestað til 1. júlí. Þetta er mildari leið við lagasetningu til að binda enda á ófremdarástandið sem skapast hefur vegna verkfallsins en að vísa deilunni til dæmis til gerðardóms og banna verkfallið.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er áfellisdómur yfir forystumönnum verkfallsmanna en sumum þeirra var fyrir lagt að hverfa frá vinnu fyrir tveimur og hálfum mánuði. Þá lét Páll Halldórsson verkfallsstjóri eins og mótuð hefði verið einhver strategía sem mundi skila hámarksárangri. Hún hefur hins vegar einfaldlega reynst leið inn í öngstræti.

Ástandið innan BHM batnaði ekki við að Þórunn Sveinbjarnardóttir, „framkvæmdastýra“ Samfylkingarinnar, tók við formennsku í BHM. Fyrir henni vakir fyrst og síðast að koma höggi á ríkisstjórnina eins og þessi orð hennar sem birtust á mbl.is að kvöldi 11. júní sýna:

„Þessi ákvörðun rík­is­stjórn­ar­inn­ar  sann­ar það sem okk­ur í BHM hafði grunað lengi, það að það átti að reyna að svelta okk­ur til hlýðni í samn­inga­ferl­inu. Það tókst þeim ekki og þess vegna ímynda ég mér að rík­is­stjórn­in fari þessa leið. En ég vona að með þess­um fresti sem gef­inn er til 1.júlí til að ná samn­ing­um fylgi ein­læg­ur ásten­ing­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að semja og leggja eitt­hvað til þeirra kjara­samn­inga.“

Af orðum Þórunnar sést að henni dettur ekki í hug að leggja neitt af mörkum til að samningar náist, allri skuld er skellt á viðsemjandann. Að félagsmenn BHM láti bjóða sér þessa framkomu af hálfu forystumanna sinna kemur verulega á óvart. Á mbl.is  sagði Þórunn einnig:

 „Ég hef fengið fregn­ir af upp­sögn­um og það má al­veg bú­ast við því að það haldi áfram miðað við tón­inn í fólki og hvernig því líður eft­ir tíu vik­ur í verk­falli.“

Svo er að sjá að hún skilji ekki þessar uppsagnir sem vantraust á sig og samningamenn BHM. Engum kemur í sjálfu sér á óvart að fólk ákveði að segja sig frá störfum sem knýr það til aðildar að félagi sem stjórnað er á þann hátt sem gert er undir forystu Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Páls Halldórssonar.