5.6.2015 22:10

Föstudagur 05. 06. 15

Rússneska myndin Levíatan var sýnd í Bíó Paradís í dag. Hún hefur verið sýnd þar öðru hverju undanfarna mánuði. Andeij Zvjafintsev er leikstjóri. Myndin var frumsýnd á síðasta ári og er hún allegoría um stjórnarhætti í Rússlandi undir forsæti Pútíns. Ljósmynd af honum hangir að baki gjörspillta bæjarstjóranum í heimskautabæ við Barentshaf. Hið eyðilegða umhverfi, leifar af strönduðum skipum í flæðarmálinu og beinagrind af stórhveli minna á Sovéttímann.

Allt endurspeglar umhverfið erfiða lífsbaráttu á hjara veraldar þar sem konur slægja og snyrta fisk við aðstæður sem ekki þættu boðlegar hér á landi. Karlar hvolfa í sig ómældu magni af vodka. Andstæðan við hina hversdagslegu niðurníðslu eru gljáfægðir glæsivagnar pólitískra og kirkjulegra höfðingja, valdastéttar sem einskis svífist til að ná sínu fram.

Innan þjóðfélagsádeilunnar er sögð önnur enn dramatískari saga einstaklinga sem er þó hálfsögð því að hún endurspeglar mannleg samskipti sem eru svo  bæld að það sem að baki býr brýst aldrei fram.

Levíatan er sæskrímsli í Jobsbók. Árið 1651 birti enski heimspekingurinn Thomas Hobbes bók sem hann nefndi Levíatan þar sem einmanalegu lífi mannsins er lýst sem dýrslegu og stuttu, allir berjast við alla, grimman valdsmann þarf til að setja samfélaginu skorður. Þótt hafið sé augljós ógnvaldur í myndinni vísar heiti myndarinnar sterkt til kenninga Hobbes um nauðsyn þess að setja grimmd mannsins og ágirnd skorður – skírskotunin til guðs verður máttlítil vegna ljóssins sem varpað er á kirkjuna.

Þetta er áhrifamikil mynd og að gerð hennar skuli hafa verið styrkt af rússneskum stjórnvöldum á sínum tíma minnir á að ekki er langt síðan að tekið var til við að þrengja markvisst að tjáningarfrelsinu í Rússlandi til að festa Vladimír Pútin og menn hans í sessi þrátt fyrir voðaverkin sem þeir vinna í Úkraínu – þar tvinnast hið veraldlega og kirkjulega vald saman á svipaðan hátt og gerist í kvikmyndinni Levíatan.

Myndin var tekin í bænum Teriberka og reyndu staðaryfirvöld stjórnar og kirkju árangurslaust að koma í veg fyrir að hún yrði sýnd þar. Myndin hefur hins vegar verið bönnuð víða annars staðar í Rússlandi vegna þess að hún varpi skugga á veraldleg og kirkjuleg yfirvöld.