12.5.2015 19:15

Þriðjudagur 12. 05. 15

Þýski jafnaðarmaðurinn Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, kom hingað í stutta heimsókn og flutti meðal annars erindi í Norræna húsinu mánudaginn 11. maí auk þess að ræða við blaðamenn. Samtöl hans vekja fleiri spurningar en þau svara.

Upphaf fréttar Karls Blöndals, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, um Roth er á þennan veg:

„Þýsk stjórnvöld harma að stjórn Íslands vilji ekki taka upp viðræður um aðild að Evrópusambandinu á ný, en virða um leið afstöðu íslenskra stjórnvalda. Þetta segir Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, sem staddur er hér á landi.

Roth var spurður hvort þýsk stjórnvöld litu svo á að Ísland væri enn umsóknarríki. „Stjórn Íslands skrifaði Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess bréf um að ríkisstjórn Íslands vildi ekki taka upp aðildarviðræður á ný,“ segir Roth. „Við hörmum þetta. Það hefði glatt mig verulega ef við hefðum getað leitt aðildarviðræðurnar til farsælla lykta. Auðvitað virðum við hins vegar afstöðu núverandi ríkisstjórnar.“

Roth sagði að það væri Íslendinga að átta sig á því hvers vegna ekki hefði tekist að ljúka viðræðunum í tíð fyrri ríkisstjórnar.“

Þetta svar bendir til þess að Evrópuráðherrann hafi ekki fengið réttar upplýsingar um stöðu ESB-málsins því að ástæðulaust er að ætla að hann fari vísvitandi með rangt mál. Þrjú atriði skulu nefnd:

Roth virðist ekki vita að ESB-viðræðurnar sigldu í strand vegna þess að ESB lagði ekki fram rýniskýrslu um sjávarútvegsmál.

Íslenska ríkisstjórnin ritaði ráðherraráði ESB bréf og tilkynnti að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki.

Íslendingar vita nákvæmlega hvers vegna hætt var að ræða við ESB um aðild. Fyrir frekari viðræðum er ekki nægilegur lýðræðislegur stuðningur meðal þjóðarinnar.

Það eykur ekki líkur á að áhugi á viðræðum við ESB aukist þegar talað er á þennan hátt um málið af sérfróðum þýskum stjórnmálamanni. Skýringin á ruglingslegum ummælum hans felst ef til vill í því að hann vilji hressa upp á flokkssystkini sín í ESB-flokknum á Íslandi, Samfylkingunni. Boðskapurinn fellur vel að því hvernig Samfylkingin vill þvæla þessu vonlausa baráttumáli sínu áfram. Að hlutast til um innlend málefni á þennan hátt mælist þó hvergi vel fyrir, hvað sem líður alþjóðasamstarfi sósíalista.