16.4.2015 17:00

Fimmtudagur 16. 04. 15

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag erindi á hádegisfundi Varðbergs í Norræna húsinu. Hér má lesa það í heild. Undir lok máls síns nefndi hann fimm atriði sem hann taldi sýna að varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna væri náið þrátt fyrir brottför varnarliðsins í september 2006. Ráðherrann sagði:

Í fyrsta lagi er varnarsamningur ríkjanna í fullu gildi. Bandarískir ráðamenn hafa staðfastlega ítrekað að skuldbindingar þeirra samkvæmt samningnum standa óhaggaðar.

Í öðru lagi er á grundvelli varnarsamningsins og samkomulagsins frá 2006 í gildi bandarísk varnaráætlun sem gerir ráð fyrir að varnir Íslands séu tryggðar með hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla. Þessi áætlun er endurskoðuð reglulega með hliðsjón af breyttum aðstæðum í samráði aðila í millum þótt ábyrgð á framkvæmd hennar sé í höndum Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna í Stuttgart.

Í þriðja lagi hefur bandaríski flugherinn tekið árlega þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi allt frá því stofnað var til þess fyrirkomulags árið 2007. Með þessu viðheldur Bandaríkjaher staðarþekkingu á Íslandi og starfslið okkar og flugþjónustuaðilar halda sterkum tengslum við bandaríska samstarfsaðila. Bandarískar gæsluvaktir eru stærri að umfangi en vaktir annarra flugherja og því meira krefjandi fyrir okkur, auk þess sem aukin tækifæri felast í sameiginlegri þjálfun og æfingum þegar loftrýmisgæslunnar nýtur við.

Í fjórða lagi hafa bandarísk stjórnvöld staðið þétt við hlið okkar innan Atlantshafsbandalagsins í mannvirkjamálum.

Í fimmta lagi fara fram reglulegar viðræður milli stjórnvalda landanna um öryggis- og varnarmál.

„Það er því staðföst skoðun mín að samstarfið gangi í alla staði vel. Það er traust og byggir á áratuga gömlum vinatengslum. Okkar verkefni er að hlúa að, viðhalda og styrkja enn frekar þessi tengsl með gagnkvæma hagsmuni ríkjanna að leiðarljósi. Þetta verður áfram eitt af mínum helstu markmiðum meðan ég gegni embætti utanríkisráðherra,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Í umræðum um ræðu ráðherrans lét ég í ljós þá skoðun að ætti að hrinda áformunum sem fjórir varnarmálaráðherrar Norðurlanda og utanríkisráðherra Íslands kynntu hinn 10. apríl í framkvæmd á trúverðugan hátt yrðu Bandaríkjamenn að halda úti herstöð á Norðurlöndunum. Hér má lesa yfirlýsingu ráðherranna.