14.4.2015 19:10

Þriðjudagur 14. 04. 15

Það fór vel á því að við upphaf þingfundar mánudaginn 13. apríl, fyrsta fundar eftir páskaleyfi, skyldi Einar K. Guðfinnsson þingforseti minnast þess að föstudaginn 10. apríl voru liðin 75 ár frá því að alþingi „gerði eina mikilvægustu samþykkt í sögu þjóðarinnar,“ eins og hann orðaði það og sagði síðan:

„Þá tóku Íslendingar í raun að fullu við stjórn allra málefna ríkisins. Þetta var annars vegar ályktun um meðferð æðstu stjórnar ríkisins þar sem ríkisstjórn Íslands var að svo stöddu falin meðferð konungsvalds og ályktun um að Ísland tæki meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu að öllu leyti í sínar hendur.

Þessir atburðir komu í kjölfar innrásar Þjóðverja í Danmörku 9. apríl 1940 en þar með urðu Danir ófærir um að rækja skyldur sínar samkvæmt dönsk-íslensku sambandslögunum frá 1918. Fregnin um innrásina í Danmörku barst hingað þegar um morguninn 9. apríl. Sat ríkisstjórnin á fundum allan daginn, svo og utanríkismálanefnd, og mikið samráð var milli þingmanna og þingflokka. Miklu skipti að ríkisstjórnin hafði séð fyrir hættuna og undirbúið sig með leynd af mikill framsýni og öryggi fyrir þá atburði er þarna urðu og þannig tryggt hagsmuni íslenska ríkisins á ógnartímum í sögu mannkyns.

Á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar tók Alþingi á næturfundi aðfaranótt 10. apríl 1940, með samhljóða atkvæðum allra þingmanna, ákvörðun um fullkomin yfirráð Íslendinga við þessar aðstæður á málefnum sínum. Næstu skref Íslendinga voru síðan stofnun embættis ríkisstjóra ári síðar og svo lýðveldis á Þingvöllum árið 1944. Báðir þessar ályktanir Alþingis eru til marks um veigamikið hlutverk þingsins í stjórnskipun Íslands og þátt þess í sögu þjóðarinnar. Þar skipti sköpum samheldni og örugg forusta. Það er fyllsta ástæða til að halda í heiðri sögu þessara atburða og minningu þeirra manna sem þá voru hér á vettvangi.“

Hvarvetna í Evrópu minnast menn nú viðburða úr eigin þjóðarsögu vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Er það til marks um litla söguþekkingu eða skort á áhuga að þessa stórviðburðar úr Íslandssögunni skuli aðeins minnst af forseta alþingis?