18.3.2015 18:40

Miðvikudagur 18. 03. 15

Í dag ræddi ég við Jón Atla Benediktsson, aðstoðarrektor HÍ og prófessor, í þætti mínum á ÍNN. Hann er einn þriggja frambjóðenda til rektors Háskóla Íslands í kosningum sem fram fara hinn 13. apríl. Samtal okkar verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Með því að sameinast um tillögu varðandi viðræður ESB og að þær hefjist ekki að nýju fyrr en þjóðin hafi samþykkt það færir stjórnarandstaðan sig aftur fyrir samþykkt tillögunnar um umsókn frá 16. júlí 2009. Við afgreiðslu hennar var felld tillaga Sjálfstæðisflokksins um að ekki skyldi sótt um nema þjóðin samþykkti það í atkvæðagreiðslu. Að stjórnarandstaðan marki sér nú þessa víglínu sýnir að foringjar hennar vilja ná tökum á undanhaldinu í stað þess að það sé skipulagslaust.

Tillagan er ekki aðeins tilraun til að stöðva stjórnlausan flótta frá „kíkja í pokann“-stefnunni heldur einnig viðurkenning á að 2009-samþykktin gilti aðeins á því kjörtímabili.

Með því að láta hjá líða að bregðast við bréfi utanríkisráðherra með þeim orðum að ESB vilji ekki blanda sér í íslensk innanríkismál er ESB einmitt að blanda sér í þau á skammarlegan hátt. Líklegt er að það sé gert með ráðum frá sendiráði ESB hér á landi en oftar en einu sinni hafa sendiherrar ESB gagnvart Íslands hlutast til um íslensk innanríkismál á ólíðandi hátt.

Nú berast vífillengjur frá Brussel, frá fulltrúum sem áður hafa svarað einföldum spurningum á einfaldan hátt og sagt að það væri ríkisstjórnar Íslands að ákvarða stöðu lands og þjóðar gagnvart ESB. Tilmæli utanríkisráðherra Íslands eru skýr og einföld, ESB viðurkenni þá staðreynd að Ísland er ekki umsóknarríki og þurrki nafn landsins af listum þar sem þetta segir.

Sagan kennir að Brusselmenn skilja ekki nei sem nei. Að þeir ætli að beita íslensk stjórnvöld þessari aðferð ber með sér valdsmannslegan hroka og veitir enn eina sýn á hvers vænta mætti af aðild að sambandinu.