9.3.2015 18:40

Mánudagur 09. 03. 15

Á vefsíðunni Andríki er í dag kynnt nýtt hefti Þjóðmála og má sjá kynninguna hér.

Í dag var rætt við sjóðstjórann og ofur-fjárfestinn Neil Woodford í þættinum Hardtalk á BBC og má sjá þáttinn og heyra hér. 

Vakinn er athygli á þættinum vegna hins raunsæja mats sem þar kemur fram á þróuninni á evru-svæðinu. Woodford segir réttilega að líta verði til þess að stjórnmálamenn hafi lagt mikið undir pólitískt vegna evru-samstarfsins og þeim sé mjög í mun að ekki verði neinn brestur í hinni pólitísku samstöðu. Staðreyndin sé hins vegar sú að efnahagslegur raunveruleiki vegi að lokum þyngra en pólitísk fyrirheit og stjórnmálamenn verði að laga sig að honum. Það sé til dæmis fráleitt að fella Þýskland annars vegar og Grikkland og Portúgal hins vegar í sama efnahagsramma. Evru-samstarfið verði ekki langlíft.

Í Venezúela þar sem marxistar sitja við stjórn hefur verið gripið til nýrra aðferða við framkvæmd marxísks skömmuntarkerfis. Komið verður fyrir um 20.000 fingrafaraskönnum  í stórverslunum til að fylgjast með innkaupum fólks. Nicolas Maduro forseti segir að með því að tengja saman fingrafar og afgreiðslukerfi verslana verði unnt að stöðva hamstur. Í um eitt ár hafa langar biðraðir verið við verslanir vegna skorts á nauðsynjum. Forsetinn telur skortinn stafa að óheiðarleika í viðskiptum, hann megi meðal annars stöðva með því að sjá til þess að enginn kaupi meira en ákveðinn skammt matvæla innan ramma reglna sem framfylgt verði með skoðun fingrafara.

Að skortur í Venezúela verði upprættur á þennan hátt er álíka fráleitt og að unnt verði að halda lífi í óbreyttu evru-samstarfi.

Efnahagslegir kraftar taka völdin og við þeim verður að bregðast með öðru en yfirborðskenndum aðferðum eða blekkingum. Við þurfum raunar ekki að fara út fyrir landsteinana til að átta okkur á hve erfitt er að skapa sameiginlegt átak í efnahagsmálum sem ræðst frekar af raunsæi en óskhyggju. Heitstrengingar um árangur í kjarasamningum eru skýrt dæmi um loftkastalasmíð hér á landi og því miður er oft samið með hana að leiðarljósi og skuldinni síðan skellt á blessaða krónuna – árinni kennir illur ræðari.