21.2.2015 21:30

Laugardagur 21. 02. 15

Tryggvi Aðalbjörnsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, flytur fréttir af Davíð Oddssyni og láninu til Kaupþings sem var veitt 6. október 2008 í þeirri von að bjarga mætti einum íslenskum viðskiptabanka í hruninu. Það er vel til fundið hjá fréttastofunni að gefa einum og sama fréttamanninum tækifæri til að fylgja einu máli. Vandinn í þessu tilviki er hins vegar sá að umgjörðin sem Tryggvi velur fréttum sínum er skakkur.

Tryggvi virðir ekki höfuðatriði málsins. Hann hefur til dæmis að engu að Davíð Oddsson seðlabankastjóri taldi nauðsynlegt að hringja í Geir H. Haarde forsætisráðherra vegna lánveitingarinnar með skýrum og skiljanlegum rökum sem fram koma í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.

Í Reykjavíkurbréfinu segir:

„En þar sem beðið var um aðstoð í erlendum gjaldeyri vildi S.Í.  [seðlabankinn] ekki taka lokaákvörðun í málinu. Stór hluti gjaldeyrisforðans var þannig tilkominn, að íslenska ríkið hafði selt skuldabréf fyrir 1 milljarð evra. S.Í. hafði varðveitt andvirðið og það hafði tekist svo vel að lánið var sjálfbært og ríkissjóður hafði af því engan kostnað.

En þar sem forðinn var þannig til kominn litu bankastjórar S.Í. svo á, að vilji ríkisstjórnarinnar, en ekki bankans, yrði að ráða niðurstöðunni.

Þeir sem báðu um aðstoðina héldu því fram, að ríkisstjórnin vildi að þessi fyrirgreiðsla yrði veitt. Þess vegna fór símtalið við forsætisráðherrann fram.“

Tryggvi fréttamaður lætur eins og þessi skýring sé röng og vitnar í seðlabankann sem segir að lánveitingin hafi ekki verið háð samráði við ráðherra. Þá telur Tryggvi að „fölsk hughrif“ vegna „sýndarviðskipta“ Kaupþingsmanna við Al Thani hafi villt um fyrir stjórnvöldum og haft áhrif á lánveitinguna enda hafi saksóknari í málinu sagt það. Í Reykjavíkurbréfinu er umgjörð Tryggva réttilega kennd við „undarlegheit“ og sagt:

„Var bent á [í frétt Tryggva af Al Thani-dóminum 12. febrúar] að einhverju sinni í langri meðferð málsins hefði verið nefnt eins og í framhjáhlaupi að byrinn sem „kaup sjeiksins“ hefði veitt Kaupþingi kynni að hafa haft áhrif á þetta með gjaldeyrisforðann. Þarna var ótrúlega langt seilst í þráhyggju sinni og andúð. Því í einum af lengstu dómum í sögu Hæstaréttar Íslands er ekki minnst á þetta mál.“