8.1.2015 19:00

Fimmtudagur 08. 01. 15

Franska blaðið Le Monde gaf í dag úr sérstakt blað um hryðjuverkið sem framið var í París í gær þegar ráðist var inn í ritstjórnarskrifstofur vikublaðsins Charlie Hebdo sem segir fréttir með skopmyndum. Ellefu voru drepnir á ritstjórninni og einn fyrir utan húsið.

Dominique de Villepin, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, segir í grein í Le Monde að þetta sé mannskæðasta hryðjuverkaáras í Frakklandi í tæpar tvær aldir og bætir við:

„Stríðsandinn er gildra. Hann er drifkraftur sem leiðir okkur hvern dag sem líður í átt að stjórnlausu stríði. Okkur er skylt að sporna við stríðsandanum í nafni lýðræðislegra gilda okkar. Eini sigurinn sem ofstækismennirnir gætu unnið væri að sannfæra okkur um að við séum í allsherjarstríði.“

Hann segir að til að forðast að lenda í blindgötu valdbeitingar beri að gera þrennt:

Í fyrsta lagi að hindra að launmorðingjar leiki lausum hala, auka verði styrk lögreglu og eftirlitsaðila og efla samstarf við aðrar þjóðir. Um sé að ræða alþjóðlegt viðfangsefni. Stöðva verði allt fjárstreymi til öfgasinnaðra íslamista í Frakklandi, einkum frá Mið-Austurlöndum.

Í öðru lagi verði að hafa hemil á hræðslunni. Það beri að forðast að grípa til sömu úrræða og Bandaríkjamenn gerðu með lögunum sem nefnd eru Patriot Act og dregið hafi úr virðingu Bandaríkjanna út á við vegna pyntinga og ólögmætra fangelsana. Sjálfir búi Frakkar við dýrkeypta reynslu vegna stríðsins í Alsír. Nái hræðslan völdum sé lýðræðið í hættu.

Í þriðja lagi verði að forðast höfnunina. Spenna og fáleikar aukist dag frá degi í samskiptum manna, særð þjóð missi blóð. Umræður og deilur sýni að vandinn felist ekki endilega í að bjarga þjóðinni vegna hættu frá öðrum heldur að bjarga henni frá sjálfri sér og sjálfseyðingarhvötinni.

Á þessum erfiðu tímum hafi sérhver maður skyldu að gegna. Ganga verði fram af ábyrgð, festu og einhuga, sýna í verki hug lýðveldissinna sem trúi á skoðanaskipti, afl menningar og mennta og friðarins.

Þessi orð bera með sér hina miklu alvöru sem einkennir boðskap ráðandi afla í Frakklandi sólarhring eftir voðaverkið. Stóra spurningin er hvort þessi alvara ráði að lokum eða óttinn sem yrði vatn á myllu hinna sem ala á stríðsandanum.