4.1.2015 17:40

Sunnudagur 04. 01. 15

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, er reyndasti stjórnmálamaður Evrópu og einn hinn áhrifamesti. Hann og Angela Merkel Þýskalandskanslari hafa nú þremur vikum fyrir kjördag blandað sér beint í þingkosningabaráttuna í Grikklandi. Þau vita að meirihluti Grikkja vill halda í evruna, um 75% Grikkja eru þeirrar skoðunar í könnun sem birt var í dag. Merkel og Schäuble láta óbeint þau boð berast að komist stjórn til valda í Aþenu að kosningum loknum sem sætti sig ekki við samningana um neyðarlánin til Grikkja og aðhaldsstefnuna í ríkisfjármálum skuli Grikkir segja skilið við evruna.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, bandalags róttækra vinstri flokka í Grikklandi, vill hverfa frá aðhaldsstefnunni og afskrifa stóran hluta grísku ríkisskuldanna vegna neyðarlánanna í þágu evrunnar. Hann er hins vegar hlynntur aðild að evru-samstarfinu. Tsipras veit sem er að ólíklegt er að hann og flokkur hans haldi forystusæti í könnunum og síðan í kosingum sannfærist kjósendur um að hann ætli að rjúfa evrusamstarfið. Það kemur í ljós næstu daga hver verða áhrif fréttanna frá Þýskalandi. Ef til vill eiga óvinsældir Schäubles og Merkel í Grikklandi eftir að styrkja stöðu Tsipras, hvað sem evrunni líður.

Hinir áhrifamiklu ráðamenn Þýskalands töluðu líklega á annan veg ef þeir vissu að grískir kjósendur hefðu lítið dálæti á evrunni. Afstaða þeirra minnir nokkuð á afstöðu ráðamanna innan ESB gagnvart Íslendingum á tíma hinna misheppnuðu ESB-aðildarviðræðna.

Um tíma töldu Brusselmenn að meirihluti Íslendinga vildi aðild að ESB og höguðu áróðri sínum í samræmi við það. Síðar sannfærðust þeir um að meirihluti Íslendinga vildi ljúka ESB-viðræðunum og greiða þjóðaratkvæði um einhverja óljósa niðurstöðu. Þá töluðu Brusselmenn í takt við þá skoðun. Loks kom í ljós að meirihluti Íslendinga sagðist ekki vilja afturkalla ESB-aðildarumsóknina nema um það yrði greitt þjóðaratkvæði. Nú halda Brusselmenn lífi í þeirri einkennilegu skoðun.

Brusselmenn hika ekki við að hlutast til um stjórnmál í Grikklandi. Þetta hafa þeir einnig gert hér á landi, ekki síst á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Sendiherra ESB gagnvart Íslandi blandaði sér beint í kosningabaráttuna í apríl 2009 og komst upp með það átölulaust af utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni og ráðuneyti hans. Til skamms tíma og kannski enn líta Brusselmenn  á utanríkisráðuneyti Íslands sem bandamann sinn í ESB-málum og svo undrast menn að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra haldi að sér höndum í samskiptum við ESB.