14.10.2014 18:40

Þriðjudagur 14. 10. 14

Lárus H. Bjarnason rektor Menntaskólans við Hamrahlíð (MH) tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að leggja öldungadeild skólans niður um áramótin 2014 – 2015.  Aðsókn væri sífellt þverrandi og yfirvöld hefðu ákveðið í tengslum við fjárlagagerð næsta árs að leggja af fjárveitingar til þeirra sem stunduðu nám til stúdentsprófs og hefðu náð 25 ára aldri. Rekstrargrundvöllur kvöldnámsins í MH væri þar með algerlega brostinn og skólanum nauðugur einn kostur að hætta þeirri starfsemi.

Öldungadeild MH kom til sögunnar í janúar 1972 og hófst kennslan 17. janúar það ár. Frumkvæðið átti Guðmundur Arnlaugsson, þáverandi rektor MH, sem fékk heimild ráðherra og ráðuneytisstjóra menntamála til þess að gerð yrði tilraun með, eins og sagði í gamalli auglýsingu, … námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að ljúka stúdentsprófi án setu í menntaskóla…. Guðmundur sagðist sjálfur hafa gert ráð fyrir 50-60 manns en reyndin varð sú að hátt á þriðja hundrað brugðust við auglýsingum skólans.

Þegar fjölmennast var í öldungadeildinni á 9. áratugunum komst nemendafjöldi yfir 700.  Á árunum kringum aldamótin voru nálægt 500 nemendur í deildinni hverju sinni en fljótlega eftir það fækkaði nemendum smám saman og voru t.d. liðlega 200 á árunum 2006 – 2011. Nú undir lokin, haustið 2014, eru nemendur aðeins taldir í tugum í stað hundraða áður segir Lárus H. Bjarnason og telur nærtækt að ætla að ýmsir möguleikar á fjarnámi innan framhaldsskólakerfisins, háskólabrýr með námslánamöguleika og stóraukið framboð ýmiss konar námskeiða hafi dregið verulega úr aðsókninni síðustu ár.

Með brotthvarfi öldungadeildar MH verða þáttaskil í skólasögunni. Þar með lýkur 42 ára kafla hennar. Öldungadeildin opnaði mörgum leið og hefur verið til marks um sveigjanleika í skólakerfinu en sá þáttur þess verður sífellt mikilvægari vegna örra breytinga.

Á ungum aldri ber að leggja megináherslu á að menn læri altækar aðferðir sem duga þeim til að takast á við ný og síbreytileg viðfagsefni. Sá sem ekki hefur tækifæri eða áhuga til að laga sig að breytingum og tileinka sér nýjungar staðnar og getur þar sem auðveldlega einangrast á vinnumarkaði og í samfélaginu.