2.10.2014 19:00

Fimmtudagur  02. 10. 14

Frétt um að hlutafélag í eigu ríkisins geti ekki staðið í skilum er nýmæli. Hún barst þó í dag af því að miðvikudaginn 1. október hafði ríkisútvarpið ekki bolmagn til að greiða 190 millj­ón króna af­borg­un af skulda­bréfi í eigu Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna rík­is­ins vegna líf­eyr­is­sjóðsskuld­bind­inga stofnunarinnar. Sam­komu­lag hef­ur náðst við eig­anda skulda­bréfs­ins um frest á greiðslu gjald­daga til ára­móta. Lengi hefur legið fyrir að ríkisútvarpið aflaði ekki nægilegs fjár til að standa undir greiðslum af­borg­ana og vaxta­greiðslna. Fyrirtækinu ber að minnka skuldir og auka veltufé til að tryggja að það sé rekstrarhæft  að mati sérfróðra.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í tilkynningu vegna greiðslufallsins:

 „Það er ljóst að við erum ekki að enn laus við þann fortíðar­vanda sem RÚV [ríkisútvarpið] hef­ur lengi glímt við. Sjálf­stæð fjár­hags­leg út­tekt staðfest­ir að skuld­setn­ing RÚV er of mik­il og það eru von­brigði að sjá að rekst­ur RÚV var ekki kom­inn í jafn­vægi eft­ir niðurskurðaraðgerðir fyrri fram­kvæmda­stjórn­ar.“

Útvarpsstjóri vonar að „menn vinni sameiginlega“  að því að „skapa viðund­andi aðstæður fyr­ir“ stofnunina svo að hún geti sinnt lögbundnum verkefnum og því sem þjóðin væntir af henni. „Rík­is­út­varpið er ein mik­il­væg­asta lýðræðis- og menn­ing­ar­stofn­un þjóðar­inn­ar og við vilj­um tryggja að það standi und­ir nafni sem út­varp allra lands­manna,“ segir útvarpsstjóri sem undanfarið hefur staðið í brúnni á hinni hripleku skútu með áhöfn sem ögrar þeim sem nú eru kallaðir til bjargar – meira að segja hollvinafélagi ríkisútvarpsins er nóg boðið.

Það er næsta sérkennilegt að stjórnendur ríkisútvarpsins vísa helst til lagalegra skuldbindinga þegar þeir rökstyðja óskir sínar um auknar fjárveitingar. Þegar þeir sem hlusta og borga benda á lagaskyldur ríkisútvarpsins er annað hljóð í strokknum. Þá er gjarnan látið eins og um ögrun eða óvináttu í garð stofnunarinnar sé að ræða.

Í gær var sagt frá aðferð Póstsins til að innheimta ofurgjald af þeim sem verða fyrir því að gleymist að setja frímerki á bréf til þeirra.

Í dag er á Evrópuvaktinni sagt frá hvernig ISAVIA stendur að vali á fyrirtækjum til starfa í flugstöð Leifs Eiríkssonar auk þess sem Fríhöfnin er blóðmjólkuð.

Ríkisútvarpið, Pósturinn og ISAVIA eru hlutafélög í eigu ríkisins. Eitthvað er brenglað í viðmóti þeirra allra.