17.7.2014 22:15

Fimmtudagur 17. 07. 14

Það fór vel um okkur í gistiheimili Ólu í Seyðisfirði. Þegar við ókum upp Fjarðarheiðina í blíðviðrinu í morgun vorum við í röð með bílum úr ferjunni Norrænu. Margir stöðvuðu við foss á leiðinni til að taka myndir, sumir við ísilagða tjörn efst á heiðinni og enn aðrir til að virða fyrir sér fegurðina á Héraði og til Snæfells þegar komið var að hringsjánni.

Við fórum að Skriðuklaustri. Þar hefur ný vídd komið til sögunnar með klausturrannsóknunum. Einstaklega vel hefur verið gengið frá rannsóknarsvæðinu og reistur hefur verið pallur til að auðvelda gestum að fá sýn yfir það auk upplýsinga sem er að finna í húsi Gunnar. Allt er þarna með miklum myndarbrag.

Við litum inn í Snæfellsstofu, nýbyggingu á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, skammt frá Skriðuklaustri. Þar er vítt til veggja til miðlunar á fróðleik um náttúru og dýralíf. Fjórar stofur eru á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, auk þessarar í Höfn í Hornafirði, Skaftafelli og Ásbyrgi.

Vegurinn yfir Hellisheiði eystri, milli Héraðs og Vopnafjarðar, er brattur og hlykkjóttur en útsýni er einstök eins og sjá má hér.

Skammt fyrir utan Þórshöfn hefur gamla steinhúsið á Sauðanesi verið endurreist og þar er minjasafn. Þaðan er um 40 mínútna akstur, rúma 30 km út á Langanes, að útsýnispallinum sem hefur verið reistur á bjargi út yfir sjóinn við Stóra Karl. Þetta gefur heimsókn á þessar slóðir nýja vídd í orðsins fyllstu merkingu, sjá hér.

Þokuslæðingur barst inn á landið og sáum við ekki Fontinn yst á Langanesi. Á leiðinni milli Bakkafjarðar og Þórshafnar lagði einnig þokustreng inn land þegar við fórum fram hjá Djúpalæk – annars hefur sólin skinið á heiði í allan dag.