12.7.2014 22:15

Laugardagur 12. 07. 14

Fyrir þá sem fylgjast með stjórnmálafréttum frá Frakklandi með lestri franskra blaða er forvitnilegt að sjá hve þær afbakast oft í enskum og þá einnig íslenskum miðlum þótt fréttirnar séu reistar á upplýsingum frá frönsku fréttastofunni AFP. Hér skal nefnd frétt á mbl.is í dag af frétt sem birtist í Le Monde þar sem birt eru afrit af símtölum Nicolas Sarkozys og Thierrys Herzogs, lögmanns hans, um að Sarkozy tali máli Gilberts Aziberts, hæstaréttardómara í Frakklandi, sem er að komast á eftirlaun en vill fá bitling hjá stjórnvöldum í Monakó. Sarkozy lofar að ræða málið við Albert prins af Mónakó í ferð sinni þangað undir lok febrúar 2014 en segist síðan ekki hafa gert það. Azibert dómari ætlar hins vegar að reka erindi fyrir Sarkozy í hæstarétti, tryggja friðhelgi dagbóka hans. Hvorugt gekk eftir, Azibert fékk ekki bitlinginn og dagbækur Sarkozys eru aðgengilegar til rannsóknar.

Sarkozy telur að um pólitískar ofsóknir sé að ræða, sósíalistar vilji hindra framboð sitt til forseta árið 2017. Hann hafði boðað ákvörðun sína um það efni í lok ágúst eða byrjun september.

Á mbl.is er sagt frá þessu á þennan hátt að Sarkozy hafi ætlað að ræða stöðuhækkun fyrir Azibert. Hann ætlaði ræða eftirlaunabitling í Monakó fyrir Azibert, hæstaréttardómara í Frakklandi.

Þá segir mbl.is að Sarkozy sé „til rann­sókn­ar í tengls­um við spill­ing­ar­mál“. Hann er þó ekki til rannsóknar í öðru máli en þessu hleranamáli sem rak á fjörur lögreglu fyrir tilviljun við rannsókn máls sem er úr sögunni.

Hér má lesa frásögn á Evrópuvaktinni um þetta mál.