10.7.2014 18:30

Fimmtudagur 10. 07. 14

Í nóvember árið 2007 flutti ég fyrirlestur í Belfer Center í John F. Kennedy School of Government við Harvard háskóla. Þar sagði ég frá flutningi á gasi frá Hammerfest í Noregi til Cove Point í Maryland í Bandaríkjunum og skipin sigldu nálægt Íslandi á leið sinni. Þetta hefði áhrif á störf Landhelgisgæslu Íslands. Í fyrstu ferð slíks skips hefði veðrið verið svo vont við strendur Noregs að hafnsögumaðurinn hefði ekki komist í land fyrr en á Íslandi þegar þyrla gæslunnar sótti hann.

Nú hefur niðurbrot á sandsteini eða flögusteini í jörðu í Bandaríkjunum gefið af sér svo mikið gas að hafnarmannvirkjunum í Cove Point hefur verið breytt svo að þaðan sé unnt að flytja út gas frá Bandaríkjunum. Enginn sá þetta fyrir árið 2007.

Eins og menn sjá á því sem ég sagði í Harvard í nóvember 2007 er alrangt sem fram kom í grein eftir Kristján Guy Burgess, fyrrv. aðstoðarmanni Össurar Skarphéðinssonar, í grein í Kjarnanum að fyrst með Össuri hafi íslenskir stjórnmálamenn tekið að ræða norðurslóðamál í Bandaríkjunum eða við bandaríska stjórnmálamenn.

Eftir að ég vék að þessari einkennilegu grein eftir aðstoðarmanninn fyrrverandi hefur mér verið sagt að hann sé orðinn fulltrúi NATO hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Frá þessu hefur ekki verið skýrt opinberlega en líklegt er að íslenskir skattgreiðendur standi undir kostnaði við þessa stöðu í nafni NATO.

Fréttir herma að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi að morgni miðvikudags 9. júlí boðað fulltrúa hóps 23 ríkja til morgunverðarfundar um landgræðslumál hjá Sameinuðu þjóðunum, til hópsins var stofnað á síðasta ári af Íslandi og Namibíu. „Leggur Ísland ríka áherslu á að markmið í landgræðslumálum verði meðal nýrra þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Gunnar Bragi á fundinum.

Utanríkisráðuneytinu er greinilega ekkert óviðkomandi úr því að ráðherra utanríkismála er tekinn til við að ræða landgræðslumál. Nýskipan í stjórnarráðinu hefur greinilega leitt til þess að hin eðlilega verkaskipting milli ráðuneyta eftir málaflokkum er úr sögunni.