1.6.2014 19:41

Sunnudagur 01. 06. 14

Að kvöldi kosninga til alþingis fyrir rúmu ári lýsti Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, úrslitum kosninganna sem „hamförum“ fyrir flokk sinn. Samfylkinguna. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 ræddu menn dræma kosningaþátttöku og ESB-fræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson lýsti henni á Stöð 2 sem „hamförum fyrir lýðræðið“.

Kosningaþátttakan hér á landi er um meiri en þegar kosið er til ESB-þingsins,  þar er hún að meðaltali um 43% hér var hún nú að meðaltali þó um 20 prósentustigum meiri. Skyldi Eiríkur Bergmann taka mark á ESB-þinginu sem lýðræðisstofnuna? Aðeins um 13% Slóvaka kusu til þingsins.

Á visir.is er rætt við Harald Bjarnason, framkvæmdastjóra Auðkennis, sem vill auka kosningaþátttöku með rafrænni kosningu. Hann telur fyrirtæki sitt hafa þróað rafræn skilríki sem nota megi til að snúa öfugþróun vegna lélegrar kjörsóknar til betri vegar.

Vandræðin við rafræna kosningu hafa verið á þann veg að hún veitir enga tryggingu fyrir aukinni lýðræðisþátttöku almennings. Vandinn við kjörsókn er ekki tæknilegur heldur snýr hann að því hvort fólk telji hag sínum betur borgið með að fara á kjörstað eða ekki.

Í ESB-ríkjunum höfðar ESB-þingið aðeins að takmörkuðu leyti til kjósenda. Í Reykjavík hefur setið borgarstjóri sem breytti kosningum  í einskonar leiksýningu. Hann gefur ekki mikið fyrir stjórnmálastarf og almennt hefur lítið verið gert úr gildi þess hin síðari ár. Varla hefur það hvatt fólk til að nýta kosningaréttinn?