23.5.2014 23:15

Föstudagur 23. 05. 14

Í dag varð sú breyting á Evrópuvaktinni að við hættum að skrifa fréttir og leiðara en höldum áfram með Stjórnmálavaktina, Pottinn og pistla. Við Styrmir Gunnarsson höfum nú haldið Evrópuvaktinni úti í rúm fjögur ár og birt fjölmargar fréttir á hverjum degi auk leiðara sex sinnum í viku. Framvegis leggjum við áherslu á ofangreinda þrjá þætti sem ávallt hafa verið mest lesnir á síðunni.

Osmo Vänskä stjórnaði 3. sinfóníu Mahlers á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld, um 100 mínútur án hlés. Flutningurinn var stórbrotinn og undirtektir áheyrenda í samræmi við það. Stjórnandinn vissi nákvæmlega hvað hann vildi og virkjaði hljómsveit, einsöngvara og kór með sér á áhrifamikinn hátt. Heildarmyndin var glæsileg og enn sannaðist hve frábær hljómburðurinn er í Eldborg - Osmo Vänskä kunni einnig að nýta hann af listfengi.