5.5.2014 21:10

Mánudagur 05. 05. 14

Við það er ekkert að athuga að teknar séu saman upplýsingar innan ráðuneytis um mál sem er á döfinni og snertir ráðuneytið. Þetta var gert í innanríkisráðuneytinu þegar boðað var til mótmæla við húsakynni þess vegna hælisleitanda. Lögfræðingur innan ráðuneytisins tók saman minnisblað að beiðni skrifstofustjóra um stöðu hælisleitandans. Í niðurstöðu héraðsdómara vegna máls sem rekið er vegna rannsóknar á því hvort brotin hafi verið þagnarskylda með því að koma efni minnisblaðsins á framfæri við fjölmiðla segir:

„Í minnisblaðinu er m.a. vikið að því að í beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins í máli hælisleitandans hafi komið fram að hann væri nú í sambandi við nafngreinda íslenska stúlku, en áður hafi hann verið í sambandi við aðra konu sem hafi stöðu hælisleitanda. Sú síðargreinda eigi von á barni og sé A mögulega faðir þess. Þá kemur fram í minnisblaðinu að í beiðninni sé því haldið fram að A hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í því eintaki minnisblaðsins sem lögfræðingur ráðuneytisins tók saman er enn fremur vikið að því að í hælismáli konunnar, sem eigi von á barni, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb.

Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að umrætt minnisblað var vistað á opnu drifi ráðuneytisins. Skrifstofustjóri sendi það með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013.“

Vandséð er hvað sé óeðlilegt við að upplýsingar af þessu tagi séu teknar saman innan ráðuneytis til að upplýsa yfirmenn þar um mál sem er á döfinni. Um það er í sjálfu sér ekki ágreiningur heldur hitt að upplýsingar sem raktar eru til þess sem þarna segir hafi birst í blöðum. Fréttastjóri Morgunblaðsins neitar réttilega að skýra frá heimildarmanni blaðsins og nýtur til þess stuðnings dómara.

Velti niðurstaða lögreglurannsóknar á að fá vitneskju um heimildarmann blaðamanns með því að yfirheyra fréttastjórann lýkur rannsókninni einfaldlega án niðurstöðu.

Að krefjast afsagnar innanríkisráðherra vegna þess að frétt hafi lekið úr ráðuneyti hennar og viðkomandi fjölmiðill neiti að upplýsa um heimildarmann er ómálefnalegt og ber vott um pólitíska óvild