27.4.2014 20:30

Sunnudagur 27. 04. 14

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2009 þegar Geir H. Haarde sagði af sér formennsku og Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður var ákveðið að ekki ætti að sækja um aðild nema ákvörðun um það yrði samþykkt af þjóðinni í sérstakri atkvæðagreiðslu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafði þessa samþykkt að engu og var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði með aðild að ESB.

Eftir að aðildarviðræðurnar hófust hefur verið efnt til nokkurra landsfunda og ávallt hefur meirihluti þar verið á móti aðild að ESB en leitað hefur verið málamiðlunar í orðalagi til að koma til móts við minnihlutann. Á síðasta landsfundi rufu ESB-aðildar/viðræðusinnar sáttaviðleitni og við svo búið var hert á orðalagi í lokatexta ályktunar fundarins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur ávallt verið óánægð með niðurstöðu landsfundarins. Henni var sýndur sá trúnaður eftir síðustu kosningar að vera kjörin í eitt af valdaembættum Sjálfstæðisflokksins sem þingflokksformaður. Hún lýsti yfir því í sjónvarpsþætti í dag að hún ætlaði ekki að taka þátt í að stofna nýjan flokk en gagnrýndi á sama tíma meirihluta flokkssystkina sinna „harðlega fyrir einstrengingslega stefnu sína í Evrópumálum“ segir á ruv.is. Þá er haft eftir henni á visir.is: „Veistu, ég gef ekkert fyrir það, þó að þar sé fyrrverandi formaður flokksins að skrifa [í Morgunblaðið], oftast nær, þá finnst mér það vera svo mikil fyrirlitning á skoðunum annarra að ég get ekki samsamað mig með slíku fólki.“

Þverstæða er í þessum orðum þingflokksformannsins sé hún að hampa eigin umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra á kostnað Davíðs Oddssonar.

Vandinn við skoðun Ragnheiðar að halda viðræðum við ESB áfram er að ESB stöðvaði framgang viðræðnanna árið 2011 með því að neita að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Af fréttum af sjónvarpsviðtalinu verður ekki ráðið hvort lykilspurning um þetta hafi verið lögð fyrir Ragnheiði. Viðræðusinnar forðast jafnan að ræða þennan þátt málsins.