4.4.2014 23:55

Föstudagur 05. 04. 14

Fór í hádegi á fund með François Heisbourg í Valhöll þar sem hann flutti erindi um ESB og evruna sem sagt er frá hér.  Heisbourg er mikilsvirtur fræðimaður og greinandi alþjóðamála og hefur um árabil verið stjórnarformaður Alþjóðahermálastofnunarinnar (IISS) þar sem ég var félagi til skamms tíma en hætti aðild að félagsskapnum vegna þess að ég hafði ekki lengur tök á eins virkri þátttöku og áður.

Heisbourg minntist á mann sem ég hitti á vettvangi IISS og annars staðar á sínum tíma François de Rose. Hann var um skeið fastafulltrúi Frakka hjá NATO.

De Rose lést fyrir rúmri viku 103 ára að aldri. Hann var einn af þeim sem komu að stofnun CERN rannsóknastöðvarinnar í Genf á sínum tíma. Þegar hann varð 100 ára bauð CERN de Rose til Genfar og var Heisbourg fylgdarmaður hans í þeirri ferð. Þeir fóru með lest frá París til Genfar og í höfuðstöðvum CERN tóku starfsmenn rannsóknastöðvarinnar á móti þeim, hundruð manna. Afmælisbarnið 100 ára flutti ræðu og var henni vel fagnað. Þeir Heisbourg fóru aftur á brautarstöðina til að ná í lestina til Parísar. Þegar þeir sátu á brautarpallinum fór de Rose í vasa sinn, tók fram vindla og spurði Heisbourg hvort hann vildi ekki reykja sér til samlætis, sem hann gerði.

Þeir hittust síðast fyrir fáeinum vikum og sagði Heisbourg á þá hefði sér í fyrsta sinn fundist de Rose sýna ellimerki. Þremur dögum áður en de Rose andaðist kynnti hann bók með frásögnum og endurminningarbrotum, við svo búið tók hann sér hvíld, lagðist fyrir og gaf upp öndina.

Ég minnist þess þegar François de Rose kom hingað til lands vegum SVS og Varðbergs og flutti ræðu um öryggsimál á fundi samtakanna fyrir tæpum 30 árum, 22. maí 1984. Eins og sjá má hér. 

Þegar ég leitaði að frásögninni af ræðu de Rose á vefsíðunnu timarit.is sá ég einnig að vitnað var í hann frétt í Morgunblaðinu 26. mars 1949 þegar hann gagnrýndi Rússa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir ásókn í kjarnorkuleyndarmál annarra þjóða. Sjá hér. 

Er vel við hæfi að rifja þetta upp í dag á 65 ára afmælisdegi Atlantshafsbandalagsins (NATO).