10.2.2014 19:40

Mánudagur 10. 02. 14

Erlendur fræðimaður sem vinnur að rannsóknum á málefnum norðurslóða sendi mér bréf og bar undir mig hvort unnt væri að treysta grein á vefsíðunnu Worldwatch Institute Europe um það sem væri að gerast í íslenskum stjórnmálum. Ég renndi yfir greinina en hana má lesa hér og ráðlagði bréfritara að láta hjá líða að vitna í greinina ef hann vildi gæta virðingar sinnar.


Nú veit ég að sjálfsögðu ekki hvað hinn ágæti erlendi fræðimaður gerir. Ég kynnti mér á netinu hver er höfundur þessarar greinar og má lesa það hér. 

Miðað við fyrirspurnina sem ég fékk er full ástæða fyrir talsmann ríkisstjórnarinnar eða viðkomandi ráðuneyta að koma á framfæri hinu rétta um málin sem þarna eru til umræðu. Það er  ekkert við því að segja að ritað sé um íslensk málefni frá eigin brjósti og það sem skrifað er sé birt á vefsíðum sem almennt vilja láta taka sig alvarlega.

Íslenska ríkið hefur hins vegar á launum fjölda manns sem eiga að huga að orðspori lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Einhver úr þeim hópi ætti að taka sér fyrir hendur að koma á framfæri leiðréttingu við ábyrgðarmann vefsíðu Worldwatch Institute Europe. Hefði hinn virti fræðimaður sem hafði samband við mig gengið í vatnið sæti hann uppi með marklitla ritsmíð og sárt enni vegna lélegrar heimildarvinnu.

Í bréfinu sem ég fékk tók bréfritari fram að hann hefði ávallt varann á þegar hann sæi greinar á vefsíðum sem tengdust umhverfisverndarsinnum. Hann hefði oftar en einu sinni rekið sig á að best væri að leita af sér allan grun um spuna eða áróður áður en til slíkra greina væri vitnað. Að stofnunum eins og Worldwatch Institute Europe sé ekki kappsmál að fá ekki óorð á sig vegna haldlítilla greina er einkennilegt.