25.10.2013 23:40

Föstudagur 25. 10. 13

Tuttugu bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 2014, sem fram fer þann 16. nóvember næstkomandi. Þá tilkynnti stjórn Varðar fimmtudaginn 24. október að allir flokksbundnir sjálfstæðismenn í Reykjavík hefðu atkvæðisrétt í prófkjörinu. Var tímabært að ákveða það daginn áður en framboðsfresti lauk. Í tilkynningu Varðar um kosningaréttinn sér:

„Vegna ákvörðunar sem tekin var á síðasta fulltrúaráðsfundi [Varðarfundi], þann 19. september síðastliðinn, um að einungis fullgildir félagsmenn (þ.e. þeir sem greitt hafa félagsgjöld) megi greiða atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 komu upp álitamál sem snéru að því hverjir væru á kjörskrá. 

Yfirkjörstjórn Varðar beindi því erindi til stjórnar Varðar og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Á meðal þess sem fram kom í svari miðstjórnar var að líta beri svo á að þeir félagsmenn sem, einhverra hluta vegna, eru ekki inntir eftir greiðslu á félagsgjaldi frá sínum félögum, og teljist þar af leiðandi ekki vera í vanskilum með félagsgjöld, hafi þáttökurétt í prófkjörinu.

Á grundvelli svars miðstjórnar hefur yfirkjörstjórn Varðar ákveðið að þeir félagsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem ekki eru í vanskilum vegna félagsgjalda séu á kjörskrá. Í samræmi við svar miðstjórnar lítur yfirkjörstjórn Varðar svo á að þótt félagsmaður hafi ekki greitt valkröfu í heimabanka þá sé viðkomandi ekki í vanskilum. Þar sem um valkvæðar greiðslur er að ræða er ljóst að enginn félagsmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík stendur í vanskilum á þeim.“

Þetta er fumleg leið til að komast hjá því að framkvæma skilyrðið sem samþykkt var á fundinum 19. september en samþykktin var gerð að tillögu þeirra sem urðu undir á fundinum þegar greidd voru atkvæði um tillögu um svonefnt leiðtogakjör borgarstjóraefnis. Í reiði vildu þeir þrengja rétt manna til þátttöku í prófkjörinu með skilyrðinu um greiðslu félagsgjalds til að öðlast kosningarétt. Nú hefur verið ákveðið að enginn flokksmaður í Reykjavík sé í vanskilum annars vegar vegna þess að félagsgjöld séu ekki innheimt og hins vegar vegna þess að greiðslur í heimabanka séu valkvæðar.