24.10.2013 23:00

Fimmtudagur 24. 10. 13

The Guardian upplýsti í kvöld að bandarískar njósnastofnanir hefðu hlerað síma 35 ónafngreindra alþjóðlegra ráðamanna. Í Noregi tóku menn strax að velta fyrir sér hvort sími ráðamanna þar í landi hefði verið hleraður. Þar segja tveir sérfræðingar að þeir yrðu ekki undrandi að í ljós kæmi að bandarísk yfirvöld vildu vita meira um sjónarmið norskra stjórnvalda en kynnast megi í fjölmiðlum. Þriðji sérfróði fræðimaðurinn er annarrar skoðunar. Hann heldur að ekkert nógu spennandi gerist í Noregi til að vekja áhuga bandarískra hlerara.

Spyrja má um Ísland: Hleraði Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) síma Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar eða Össurar Skarphéðinssonar? Þarf ekki að leita svara við þessu – eða hvort símar núverandi ráðamanna eru hleraðir?

Áhugi á hlerunum hvarf á alþingi eftir að Ögmundur Jónasson varð dómsmála- og síðar innanríkisráðherra. Það liggur þó fyrir að lögregla hefur aldrei stundað jafnvíðtækar hleranir hér á landi en í stjórnartíð hans og Jóhönnu Sigurðardóttur. Áhugi þingmanna á hlerunum snerist raunar aldrei um samtímann heldur það sem gerðist fyrir 50 til 70 árum.

Jón Baldvin Hannibalsson og Árni Páll Árnason sögðu síma sína hafa verið hleraða þegar þeir störfuðu í utanríkisráðuneytinu. Málið var rannsakað án þess að nokkuð grunsamlegt kæmi í ljós – það skyldi þó ekki hafa verið NSA sem hleraði síma þeirra?