14.10.2013 22:30

Mánudagur 14. 10. 13

Sérstaða talsmanns neytenda hefur löngum verið verið nokkur frá því að það var stofnað með lögum frá 2005. Talsmaðurinn hefur oftar en ekki til dæmis lýst allt öðrum lagaskilningi en aðrir lögfræðingar. Nú hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra lagt fram frumvarp til laga um að embættið hverfi úr sögunni. Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars:

„Í skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands, sem gefin var út í maí 2008 undir heitinu Ný sókn í neytendamálum, var fjallað um skipulag og yfirstjórn neytendamála. Í skýrslunni var m.a. tekið fram að æskilegt væri að sníða vankanta af núverandi fyrirkomulagi og væri það til þess fallið að styrkja neytendavernd hér á landi. Þar segir jafnframt á bls. 231 að „[n]úverandi fyrirkomulag – að hið opinbera haldi annars vegar úti Neytendastofu og hins vegar embætti talsmanns neytenda – er til þess fallið að skapa nokkurn rugling, bæði meðal neytenda um það hvert skuli leita, svo og um aðgreiningu verksviðs hvorrar stofnunar fyrir sig. Með hliðsjón af því, svo og stærð lands og þjóðar, virðist skynsamlegra að stefna að því að reka eina og sterka opinbera stofnun á sviði neytendamála.“
    Eins og segir í gildistökuákvæði er gert ráð fyrir að verkefnum sem nú er sinnt af embætti talsmanns neytenda verði í framtíðinni sinnt af Neytendastofu. Reynslan hefur sýnt að mjög óhagkvæmt er að reka stofnun með eingöngu einum starfsmanni, sem á að sinna öllu í senn, rekstrarlegum þáttum, öflugri faglegri starfsemi, halda úti upplýsingagjöf til almennings og rekstur heimasíðu. Því er með þessari tillögu verið að styrkja málaflokkinn. Tilgangurinn er fyrst og fremst hagræðing og einföldun en nokkuð hefur borið á því að neytendur rugli saman embætti talsmanns neytenda og Neytendastofu og átti sig ekki á hlutverki stofnananna.“

Allt er þetta kurteislega orðað enda ekki ástæða til annars. Hið undarlega er hvers vegna ekki var strax á árinu 2008 ákveðið að stíga það skref sem nú er stigið. Var ekki sagt að stjórnmálamenn hefðu átt að læra af hruninu að fara að faglegri ráðgjöf? Þrátt fyrir álit þriggja háskólastofnana um hið gagnstæða hefur embætti talsmanns neytenda lifað í fimm ár á kostnað skattgreiðenda.