16.9.2013 22:40

Mánudagur 16. 09. 13

Frönsk íslensk sinfóníuhljómsveit kom fram á tónleikum í Norðurljósum Hörpu í kvöld stjórnandi var Amine Kouider. Tónleikarnir voru helgaðir minningu þeirra sem fórust með franska rannsóknaskipinu Pourquoi pas? í ofviðri á Faxaflóa og fórst við Álftanes á Mýrum aðfaranótt 16. september 1936, aðeins einn maður bjargaðist.

Jean Baptiste Charcot heimskautakönnuður stjórnaði leiðangrinum og var frú Anne-Marie Vallin-Charcot, barnabarn Charcots, á tónleikunum í kvöld og flutti stutt ávarp. Pourquoi pas? var frá hafnarborginni St. Malo á Bretagne-skaga og þangað fór ég sem menntamálaráðherra með afsteypu af styttu Einars Jónssonar til minningar um Pourquoi pas? og stendur hún nú við hafnarmynni borgarinnar.

Andvirði aðgangseyris tónleikanna rann til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í þakklætisskyni fyrir björgun frönsku stúlkunnar Jeanne Francois Maylis sem var týnd í byrjun júní á þessu ári á hálendinu á milli Skötufjarðar og Mjóafjarðar og fannst eftir rúmlega þrjátíu klukkustunda leit.

Fransk-íslenska sinfóníuhljómsveitin (FIFO) er skipuð hljóðfæraleikurum úr Kammersveit Reykjavíkur og Alþjóðlegu fílharmóníusveitinni hjá UNESCO í París. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru í gær í Grundarfirði. Næst kemur hún fram vorið 2014 í höfuðstöðvum UNESCO í París.

Í höfuðstöðvum UNESCO sat ég marga eftirminnilega fundi á sínum tíma og stjórnaði einum sem snerist um lífsýni og friðhelgi mannsins. Þetta var þegar íslenskir ráðherrar lögðu sig í líma við að skýra löggjöfina sem skapaði starfsgrundvöll deCode og Íslenskrar erfðagreiningar. Ein röksemdin var að allt íslenska heilbrigðiskerfið kæmist á hærra og hagkvæmara stig með skrásetningu upplýsinga um Íslendinga í sameiginlegan gagnagrunn. Hefur það gengið eftir? Heyrir einhver talað um það nú þegar sverfur að heilbrigðiskerfinu vegna fjárskorts?

FIFO lék með glæsibrag í Norðurljósum. Áður en lokaverk tónleikana hófst, Serenaða fyrir strengi í C-dúr eftir Tsjakovskíj, voru veggtjöld dregin upp í salnum til að auka hljómburðinn. Minnti það á hve mikil alúð var lögð við að tryggja sem bestan hljómburð í tónleikasölum Hörpu enda eru þeir meira nýttir en nokkur gat gert sér í hugarlund og hið sama má segja um hinn mikla fjölda fólks sem heimsækir hið einstæða hús.