12.9.2013 23:40

Fimmtudagur 12. 09. 13

Í Viðskiptablaðinu í dag segir að tímagjald slitastjórnar Kaupþings hafi hækkað úr 27 þúsund krónum í 32.500 á árinu 2012. Fjórir slitastjórnarfulltrúar vinni um 97 til 125 prósent vinnu fyrir slitastjórnina, fyrir utan það sem þau vinni á sínum föstu lögmanns- og endurskoðunarskrifstofum. Hinn hæst launaði hafi fengið 79 milljónir króna greiddar og hafi því unnið 2.615 stundir fyrir slitastjórnina á árinu 2012. Segir blaðið að 40 klukkustunda vinnuvika allar 52 vikur ársins – án allra fría um jól, páska o.s.frv. –  sé 2080 tímar. Aðrir slitastjórnarmenn hafi fengið greitt á bilinu 61-65 milljónir króna og allir hafi unnið meira en 2.000 tíma fyrir slitastjórnina, meðfram þeirra hefðbundnu störfum.

Slitastjórnir tóku við af skilanefndum bankanna. Fjármálaeftirlitið skipaði skilanefndirnar haustið 2008 en verkefni þeirra voru falin slitastjórnum á árinu 2011. Engin lagaákvæði giltu um skilanefndirnar en þær störfuðu lögum samkvæmt í umboði fjármálaeftirlitsins. Hinn 15. apríl 2009 voru samþykkt lög sem settu heildarrammi um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Var þá lögfest heimild til að setja slitastjórnir yfir fjármálafyrirtæki að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, og kemur það í hlut héraðsdómara sem tekur fjármálafyrirtæki til skipta að skipa því slitastjórn. Hefur slitastjórnin flestar sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús, eins og nánar er lýst í lögunum.

Samkeppniseftirlitið birti í byrjun júní 2011 skýrslu sem heitir Samkeppni eftir hrun. Í tilkynningu um skýrsluna sagði að nokkrir hvatar væru í kerfinu sem toguðu í ranga átt og tefðu ferlið við endurskipulagningu fyrirtækja og endurreisn atvinnulífsins. Þar er fyrst nefndur þessi hvati:

„Umsýsluvandi“ (Freistnivandi I). Hann endurspeglast í því að þeir aðilar sem starfa við að leysa úr vandamálunum hafa af því talsverðar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Þrátt fyrir góðan ásetning vinna hagsmunir þeirra af tekjuöflun og atvinnuöryggi gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn.  Hér eiga í hlut skilanefndir, starfsmenn í úrlausnarferlum bankanna, starfsmenn viðkomandi fyrirtækja o.fl.

Haustið 2011 tóku slitastjórnir við af skilanefndum bankanna. Þegar vakið er máls á háum launum slitastjórnarmanna er brugðist við á þann veg að kröfuhafar standi undir kostnaðinum. Á þennan hátt er leitast við að drepa umræðum á dreif með slíku tali. Miklu nær er að huga að ábendingum samkeppniseftirlitsins um „umsýsluvandann“ það er hag fólks af því að draga lausn mála á langinn vegna eigin hagsmuna en gegn hagsmunum samfélagsins.

Ber enginn ábyrgð á að bregðast við ábendingu samkeppniseftirlitsins um umsýsluvandann?