17.8.2013 22:20

Laugardagur 17. 08. 13

EBS-umsóknin er að baki, hvorugur stjórnarflokkanna vill aðild að ESB. Málsmeðferð flokkanna er hins vegar á þann hátt að málið er enn eins og á byrjunarstigi tæpum þremur mánuðum eftir að stjórnin var mynduð.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ríkisútvarpinu í dag að flokkarnir hefðu ekki rætt málið. ESB-aðildarsinnarnir á fréttastofu ríkisútvarpsins og Þorsteinn Pálsson sem sat í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinsson gera sér mat úr hverjum mola sem fellur og þeir telja að megi nota til að japla áfram á aðildarboðskapnum.

Málflutningurinn minnir helst á tilraunir Halldórs Jóhannssonar, umboðsmanns Huangs Nubos, til að halda lífi í umsókn hans um að eignast Grímsstaði á Fjöllum. Í því máli er hver moli nýttur til ýtrasta svo að villuljósið slokkni ekki. Huang Nubo fær aldrei aðstöðu á Grímsstöðum. Sá stjórnmálamaður sem lætur eins og það gerist fær sömu útreið í kosningum og Samfylkingin vegna ESB-málsins. Hvaða heilvita maður velur þann kost?

Ríkisstjórnin er með of marga bolta á lofti. Hún verður að taka af skarið á þann veg að málum sé lokið eða þau séu „tengd í jörð“ eins og Davíð Oddsson orðaði það. Til þess verða menn að ræða málin til hlítar milli stjórnarflokkanna.