30.4.2013 19:10

Þriðjudagur 30. 04. 13

Menn þurftu ekki að vera með háskólapróf í stjórnmálafræði til að átta sig á því hvert stefndi eftir samtöl Ólafs Ragnars við stjórnmálaleiðtoga í gær. Tveir þeirra utan Framsóknarflokksins, Árni Páll Árnason (Sf) og Birgitta Jónsdóttir pírati sögðu að þau hefðu lagt til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) fengi umboð til stjórnarmyndunar. Einn skilaði auðu eins og jafnan, Guðmundur Steingrímsson (Bf), og Bjarni Benediktsson (S) taldi eðlilegt að hann fengi umboðið sem formaður stærsta flokksins en gerði það ekki að neinu úrslitaatriði.

Í morgun tilkynnti Ólafur Ragnar að Sigmundur Davíð fengi umboðið. Við svo búið sagðist formaður Framsóknarflokksins ætla að ræða við forystumenn allra flokka.

Innan Framsóknarflokksins hafa ávallt verið öflugir talsmenn þess að flokkurinn  starfaði til vinstri, hann ætti ekki pólitíska samleið með Sjálfstæðisflokknum. Þetta heyrðist á þeim árum sem ég sat í ríkisstjórn með ráðherrum Framsóknarflokksins. Nú er nýr, stór þingflokkur framsóknarmanna tekinn til starfa. Það verður spennandi að vita hvernig hann tekur á málum og hve sterk staða Sigmundar Davíðs er innan hans.

Allt kemur þetta í ljós næstu sólarhringa og einnig hve liprir flokksformenn eru í viðræðum um myndun ríkisstjórnar. Enginn þeirra hefur áður komið að slíku verkefni.

Þegar ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna var mynduð eftir kosningar 1995 áttum við Guðmundur Bjarnason okkar þátt í að skapa traust á milli forystumanna og nutum þar samstarfs okkar á þingi Evrópuráðsins í Strassborg. Þetta var vandasöm stjórnarmyndun af því að sjálfstæðismenn sögðu skilið við Alþýðuflokkinn sem hafði klofnað fyrir tilverknað Jóhönnu Sigurðardóttur og var auk þess með ESB-aðild á stefnuskrá sinni. Hún tókst hins vegar á farsælan hátt.

Nú hafa báðir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, verið utan stjórnar í eitt kjörtímabil, framsóknarmenn raunar síðan 2007, og aðstæður eru því aðrar en 1995. Lykillinn að farsælu samstarfi er hins vegar sá sami og áður, að það ríki traust á milli þeirra sem taka höndum saman um að stjórna landinu.