12.3.2013 21:10

Þriðjudagur 12. 03. 13

Í dag komu kardínálarnir (115) saman í fyrsta sinn saman í Sixtinsku-kappelluna, sem var reist 1475 til 82 fyrir Sixtus IV páfa til að greiða atkvæði um nýjan páfa undir málverki Michelangelo, Dómsdegi. Listaverkin í kapellunni hafa nýlega verið hreinsuð og er hún eins og annað í þessum hluta Vatíkansins meðal helstu dýrgripa mannkyns. Ég var á ráðstefnu í Vatíkaninu í byrjun janúar 1999 og skrifaði í pistil hér á síðuna 17. janúar 1999:

„Okkur málþingsgestum var boðið að gista í Domus Sanctae Marta í Casa Santa Marta. Þetta er nýtt gistihús, sem var reist í þeim megintilgangi að hýsa kardínála, þegar þeir koma saman í Róm til að kjósa páfa.

Í [...] bók um Jóhannes Pál páfa II er sagt frá því, að þannig hafi verið búið að kardínálum haustið 1978, þegar þeir komu síðast saman til páfakjörs, að þeir hafi gist í klefum, sem hafi verið innréttaðir til bráðabirgða í gömlum híbýlum Borgia-páfanna. Í hverjum klefa hafi verið beddi, náttborð og lítið skrifborð. Sameiginlegt baðherbergi hafi þjónað þeim.

Í Casa Santa Marta er aðstaðan allt önnur, þótt þar sé enginn íburður. Í tölvupósti hafði verið sagt, að aðeins væri um eins manns herbergi að ræða, en þegar við Rut komum á staðinn hafði aukarúm verið flutt í rúmgott svefnherbergið, en framan við það var skrifstofa með tveimur stólum við allstórt skrifborð. Má því segja að hver kardínáli hafi nú litla íbúð með baði til ráðstöfunar. Sími er í íbúðinni en hvorki útvarp né sjónvarp. Þá virðast menn þurfa að fara út fyrir Vatíkanið, vilji þeir kaupa dagblöð, raunar sjást ekki neinar verslanir innan veggja þess.

Á fyrstu hæð Domus Sanctae Marta er stór borðsalur, þar sem nunnur með aðstoðarkonum ganga um beina. Á sömu hæð er einnig sameiginlegt sjónvarpsherbergi. Húsinu tilheyrir einstaklega falleg kapella, þar sem sungin var messa á hverjum morgni, á meðan við dvöldumst þar.

Kyrrðin er algjör í byggingunni og raunar næsta einkennilegt að hugsa til þess í þögninni, að rétt utan við múra Vatíkansins sé iðandi mannlíf og stöðugt umferðaröngþveiti stórborgar, sem er sprungin utan af sjálfri sér.“

Það væsir ekki um kardínálana á meðan þeir dveljast í Vatíkaninu við val á páfa, samkunda þeirra nefnist conclave – bein þýðing er „með lykli“ – vísar orðið til þess að kardínálarnir eru læstir inni þar til hvítur reykur stígur upp úr Sixtinsku-kappellunni. Eftir fyrstu atkvæðagreiðsluna í dag var hann svartur. Á morgun greiða þeir atkvæði fjórum sinnum.