3.1.2013 21:40

Fimmtudagur 03. 01. 13.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar alþingis, sýndi einstakt dómgreindarleysi með því að ráðast á biskupinn yfir Íslandi frú Agnesi M. Sigurðardóttur fyrir að boða í nýárspredikun sinni að þjóðkirkjan ætlaði að leggja Landspítalanum lið við að safna fé til tækjakaupa. Sjá hér.

Sigríður Ingibjörg jós úr skálum reiði og hneykslunar yfir hlustendur hádegisfrétta ríkisútvarpsins í dag. Spurning vaknar hvernig nokkrum datt í hug að leita til hennar til að fá þessa frétt. Fékk fréttastofan ábendingu um að reiði væri innan Samfylkingarinnar vegna predikunar biskups? Er málum í raun þannig háttað að þingmönnum Samfylkingarinnar þótti að sér vegið með predikun biskups?

Viðbrögð Sigríðar Ingibjargar benda til þess. Innan VG er einnig reiði vegna framgöngu biskups ef marka má sérkennilega færslu Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar alþingis, á vefsíðu hans.

Viðbrögðin benda til að þingmenn Samfylkingar og VG muni gera það sem í þeirra valdi er til að hindra að þjóðkirkjan geti staðið að fjársöfnuninni fyrir Landspítalann á þann veg sem biskup boðaði. Með því næði óvild þessara flokka í garð kirkjunnar nýjum hæðum.

Afstaða Sigríðar Ingibjargar er í ætt við stuðning borgarfulltrúa Samfylkingarinnar við það sem gert hefur verið í Reykjavík undir forystu Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, til að úthýsa kristni og fræðslu um hana úr skólum Reykjavíkur.