26.10.2012 21:30

Föstudagur 26. 10. 12

Heppilegt að ég lét setja nagladekkin undir í dag. Þegar komið var austur að Hvolsvelli var snjóföl á jörðu og hálka inn Fljótshlíðina.

Í dag birtist á SpiegelOnline löng frásögn um fjárfestingar Kínverja erlendis og raunar einnig heima fyrir í Kína. Frásögnin hefst á heimsókn til góðkunningja Íslendinga, Huangs Nubos. Hann lýsir enn einu sinni vonbrigðum sínum yfir að fá ekki að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og þýsku blaðamennirnir segja hann hafa glatað upphaflegum áhuga sínum á Grímsstöðum og Íslandi. Ekki er minnst einu orði á að Huang hafi ætlað að skrifa undir leigusamning um hluta Grímsstaðalandsins um miðjan október. Þýðir það að hann hafi ekki lengur áhuga á að koma sér fyrir á Íslandi? Á Evrópuvaktinni má lesa þýðingu af frásögninni í SpiegelOnline.

Sama dag og þessi frásögn birtist í þýsku blaði má í The New York Times lesa langa frásögn um ótrúlega auðsöfnun fjölskyldu Wen Jiabaos, forsætisráðherra Kína. Þar kemur fram hið sama og alls staðar má lesa þegar rætt er um kínverska auðmenn að enginn í landinu getur skapað sér sambærilega aðstöðu og Huang Nubo hefur tekist nema hann njóti velvildar kommúnistaflokksins eða hafi náin tengsl við æðstu menn hans og þjóðarinnar. Að annað gildi um Huang Nubo er fráleitt enda er kommúnistaflokkurinn hinn ósýnilegi bakhjarl allra kínverskra fyrirtækja.

Vaki ekki fyrir kínverskum ráðamönnum að skapa aðstöðu í þágu Kína með fjárfestingum Huangs Nubos hangir hitt á spýtunni að einhver innan flokksins hafi fjárhagslegan hag af viðskiptum Huangs við Íslendinga. Huang kom hingað sem skáld og Íslandsvinur með tengsl inn í valdastétt Samfylkingarinnar. Hann var talinn hafa einstaka aðstöðu til að búa um sig á Íslandi, forráðamenn Samfylkingarinnar tóku honum fagnandi og lögðu honum meira að segja til lögfræðing, Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi formann þingflokks Samfylkingarinnar.

Kínverska valdastéttin leit á valdastöðu Samfylkingarinnar og taldi sig horfa í spegil. Rauði dregillinn var dreginn fram í sendiráði Íslands í Peking og Huang gat vitnað til tengsla við forseta Íslands. Allt kom fyrir ekki, íslensk lög var ekki unnt að teygja á þann veg að þau rúmuðu Huang á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá var breytt um taktík og gengið á eftir sveitarstjórnarmönnum á norðausturlandi með grasið í skónum. Nú hefur Huang Nubo misst upphaflega áhugann á Íslandi og situr á síðkvöldum við ljóðagerð með héra og dverg-hákarla sér við hlið.