21.10.2012 21:21

Sunnudagur 21. 10. 12

Furðulegt er nú að sjá fulltrúa stjórnlagaráðs tala um „atkvæðagreiðslu af þessu tagi“ þegar rætt er um skoðanakönnunina 20. október til að skýra að eðlilegt sé að ekki nema tæplega 50% kjósenda hafi farið að kjörstað og tekið þátt í skoðanakönnuninni. Hefði „atkvæðagreiðslan“ verið nefnd skoðanakönnun og ekki nema tæp 50% tekið þátt hefðu menn varla talið hana marktæka. Við fagnaðaryfirlýsingar um þátttökuna er síðan bætt að þingmenn hafi ekki heimild til að breyta neinu í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er sagt við alþingismenn sem höfðu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave að engu og gerðu nýjan Icesave-samning sem síðan var enn á ný felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að greidd séu atkvæði um efni í stjórnarskrá er sjaldgæft. Það var gert hér á landi vegna stofnun lýðveldis og þá var þátttakan nærri 100%. Hans Haraldsson vekur athygli á því á vefsíðu sinni að í Frakklandi hafi þátttaka verið um 80% þegar kosið var um stjórnarskrá V. lýðveldisins á sjötta áratugnum.

Líklegt er að fögnuður stjórnlagaráðsliða stafi af því að þeir höfðu búið sig undir enn verri útkomu. Hitt er síðan einbert ofríki að setja alþingismönnum skorður, stjórnarskrá lýðveldisins segir að þeim beri að fara eftir eigin sannfæringu. Þeir eru ekki bundnir af skilyrðum kjósenda eða annarra ráðgjafa. Skoðanakönnunin var ráðgefandi. Alþingismenn hafa stjórnarskrárvaldið og hafa ráðið sérfræðinga til að veita sér ráðgjöf um textasmíði stjórnarskrárinnar.

Ég skrifaði pistil um úrslitin í skoðanakönnunina hér á síðuna. Nú fyrst hefst hin raunverulega vinna við að smíða stjórnarskrártextann. Unnið hefur verið að verkinu á bakvið luktar dyr undanfarið á vegum stjórnarflokkanna. Tími er til þess kominn að upplýsa almenning um hvað málið snýst svo að unnt sé að hefja almennar umræður um texta sem máli skipta en ekki málamiðlunartexta stjórnlagaráðs sem reynist marklítill þegar í hann er rýnt.