26.9.2012 22:50

Miðvikudagur 26. 09. 12

Í morgun ræddi ég þróunina á norðurslóðum og áhrifin á Ísland á fundi með þingmönnum í nefnd á vegum NATO-þingsins. Nefndarmenn kynna sér norðurslóðir í því skyni að semja skýrslu um efnahagslegar breytingar.

Gestur minn í ÍNN í dag er Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri Þjóðmála. Tímaritið hefur nú komið út í rúm 8 ár, fjórum sinnum á ári. Nýjasta heftið 3. hefti 2012 kom út í dag. Þar er meðal annars að finna greinar um stöðu Sjálfstæðisflokksins, Gnarrinn, NATO og frjálshyggjuna.

Þegar menn lesa gagnrýni á frjálshyggjuna í bókum eins og þeim sem fjallað er um í Þjóðmálum að þessu sinni eftir Einar Már Jónsson annars vegar og Stefán Snævarr hins vegar sést vel hve þessi gagnrýni ristir í raun grunnt. Hún er í raun um einskonar neyðaróp vegna þess þjóðfélagsskipulags sem hefur náð undirtökunum, ekki aðeins hér á landi heldur meðal allra þjóða sem nokkurs mega sín.